Aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna
Ítarleg umræða um skuldavanda heimilanna fór fram á fundi ríkisstjórnarinnar í gær. Skuldavandi heimilanna og endurskoðun úrræða hefur verið forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar á undanförnum vikum. Hefur sérstök ráðherranefnd haft það verkefni með höndum að yfirfara og leggja til endurbætur á núverandi úrræðum og leita nýrra.
Hefur ríkisstjórnin nú þegar samþykkt að leggja fram eftirtalin frumvörp á Alþingi:
1. Frumvarp til laga um að lögbundinn tímafrestur til handa skuldurum til að óska eftir frestun á nauðungaruppboði verði framlengdur til 31. mars 2011.
2. Frumvarp til laga sem veiti skuldurum skjól gegn innheimtu og uppboðum um leið og þeir óska eftir aðstoð og skuldaaðlögun hjá umboðsmanni skuldara.
3. Frumvarp til laga um styttingu á fyrningarfresti krafna í kjölfar gjaldþrots niður í tvö ár að jafnaði.
4. Frumvarp til laga um heimila Íbúðalánasjóði að bjóða til leigu íbúðir sem sjóðurinn hefur keypt á uppboði þannig að tilteknir húsaleigusamningar verði með kauprétti.
Jafnframt er unnið að endurskoðun og einföldun reglna um greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara sem og reglna um sértæka skuldaaðlögun hjá bönkum og lánastofnunum með það markmiði að ryðja burt hindrunum og einfalda og flýta málsmeðferð. Er gert ráð fyrir að þær endurbætur krefjist lagabreytinga í einhverjum tilvikum m.a. að því er varðar reglur um ábyrgð þriðja manns og reglur um lánsveð. Verða þær breytingar og lagfæringar kynntar á næstu vikum.
Ríkisstjórnin stefnir að því að taka til afgreiðslu næstkomandi föstudag frumvarp til laga um endurreikning ólögmætra gengistryggðra lána til samræmis við dóm Hæstaréttar. Mun endurreikningur samkvæmt lögunum rétta af fjárhagsstöðu fjölda einstaklinga og heimila.
Sérstakur sérfræðingahópur vinnur nú að útreikningi á kostnaði vegna mismunandi leiða vegna almennra aðgerða í þágu skuldugra heimila. Niðurstöðu þeirrar vinnu má vænta í næstu viku og verður þá lagt mat á það hvaða leið geti helst komið til álita með hliðsjón af þeim fjölþættu markmiðum sem stefnt er að. Við þá vinnu verður lögð áhersla á víðtækt samráð og samstöðu um aðgerðir í þágu heimila og samfélagsins.
Ríkisstjórnin leggur áherslu á að þeir einstaklingar og þau heimili sem þarfnast aðstoðar vegna skuldavanda leiti án tafar til umboðsmanns skuldara eða viðskiptabanka síns um aðstoð. Með því er hagsmunum þeirra best borgið. Ósk um aðstoð nú mun á engan hátt skerða rétt þeirra til að njóta betri úrræða sem síðar kunna að bjóðast.
Reykjavík 20. október 2010