Endurútreikningur lækkar lán og tryggir öllum ávinning af gengislánadómi
Efnahags- og viðskiptaráðuneytið áætlar að fjármálafyrirtæki hafi nú þegar endurreiknað gengisbundna lánasamninga 25 til 30 þúsund einstaklinga. Þeir lántakendur sem um ræðir hafa fengið tilkynningu um lækkun eftirstöðva lánsins í heimabanka nú þegar eða munu fá tilkynningu á næstu dögum og vikum. Endurútreikningar lána eru liður í viðbrögðum fjármálafyrirtækja vegna dóms Hæstaréttar frá 16. september sl. og fyrirhugaðrar löggjafar stjórnvalda þess efnis að gengisbundin lán til húsnæðis- og bílakaupa séu ólögleg.
Efnahags- og viðskiptaráðherra hefur þegar boðað frumvarp sem tryggir að dómur Hæstaréttar nái til allra gengisbundinna lána til húsnæðis- og bílakaupa. Reglur um uppgjör tryggja þeim sem hafa selt frá sér bíl eða íbúðarhúsnæði sanngjarna endurgreiðslu og miðar stór hluti vinnunnar að því að greiða úr slíkum málum. Sum fjármálafyrirtæki bjóða endurgreiðslu eða skuldajöfnun við höfuðstól. Nokkur fyrirtæki hafa ekki lausafé til að endurgreiða öllum lántakendum. Því er í frumvarpinu heimild til skuldajöfnunar, sem tryggir að ekki komi til þrots lánastofnana og þar með að viðskiptavinir viðkomandi fyrirtækja tapi öllum kröfum sínum á hendur þeim.
Frumvarpið miðar að því að skila öllum lántakendum gengisbundinna lána lækkun eftirstöðva, óháð samningsgerð. Samkvæmt frumvarpinu munu eftirstöðvar lánanna lækka verulega við breytinguna, t.d. um 25-47% fyrir 25 ára lán. Frumvarpið er í vinnslu í ráðuneytinu og verður að óbreyttu lagt fram í ríkisstjórn á föstudag.