Ávarp umhverfisráðherra við vígslu ofanflóðavarna í Ólafsvík
Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra flutti eftirfarandi ávarp við vígslu ofanflóðavarna í Ólafsvík 21. október 2010.
Ágætu íbúar Snæfellsbæjar og aðrir gestir,
Það er mér sönn ánægja að vera hér með ykkur á þessum mikilvægu tímamótum þegar lokið er frágangi ofanflóðavarna hér í Ólafsvík.
Ofanflóð og þá einkum snjóflóð hafa valdið meira manntjóni á Íslandi en nokkrar aðrar náttúruhamfarir. Á 20. öldinni létust 166 manns í snjóflóðum á Íslandi. Þar af fórust 107 í þéttbýli. Í kjölfar snjóflóðanna á norðanverðum Vestfjörðum 1995 þar sem 34 manns létu lífið ákváðu stjórnvöld að hvetja til markvissra aðgerða til að slíkir atburðir mundu ekki endurtaka sig hér á landi. Var löggjöf breytt og sveitarfélögum sem bjuggu við snjóflóðahættu gert skylt að láta fara fram skipulegt áhættumat á byggðum hættusvæðum og á þeim grunni hefja uppbyggingu snjóflóðavarna. Til þessara aðgerða mundu sveitarfélögin njóta fjárhagsaðstoðar Ofanflóðasjóðs í samræmi við reglur sjóðsins og viðurkennt verklag. Var umhverfisráðuneytinu falið að annast umsjón með framkvæmdinni af hálfu ríkisvaldsins og tók það formlega við verkefninu 1. janúar 1996. Jafnframt var starf Veðurstofu Íslands að snjóflóðavörnum aukið umtalsvert til að aðstoða við hættumat og vöktun vegna snjóflóða.
Við Íslendingar þekkja flestum betur hvernig er að búa við náttúruvá. Hér verða reglulega stórir jarðskjálftar, eldsumbrot verða með nokkurra ára millibili og aftakaveður koma hér af og til. Landsmenn hafa aðlagað sig þessum aðstæðum og umfangsmikið rannsóknar- og vöktunarstarf er unnið í því skyni að tryggja hér lífvænleg skilyrði til búsetu.
Strax á árinu 1996 ákvað ráðuneytið að efla verulega rannsóknir á eðli snjóflóða og komu á öflugu eftirliti með snjóflóðahættu og gerð rýmingaráætlana, sem styðjast skyldi við þar til lokið yrði gerð varnarvirkja. Þá var unnin yfirgripsmikil úttekt á öllum helstu snjóflóðahættusvæðum í byggð og metnir líklegir varnarkostir á hverjum stað. Í framhaldi af þeirri úttekt var ákveðið í samráði við viðkomandi sveitarfélög að ráðast í byggingu varanlegra snjóflóðavarna og tryggja þannig öryggi fólks í byggð. Um er að ræða stórt verkefni sem mun enn taka mörg ár að ljúka að fullu, þó nú hafi verulega miðað í auknu öryggi á flestum þeim þéttbýlisstöðum sem talið var að byggju við snjóflóðahættu. Hafa sum varnarvirkin sem reist voru þegar sannað gildi sitt.
Víst er það svo að menn höfðu ekki talið vera mikla hættu á snjóflóðum hér í Ólafsvík, en það er þó í fersku minni margra sem hér búa snjóflóðið sem féll úr Tvísteinahlíð og olli verulegum skemmdum á Heilsugæslustöðinni hér árið 1995. Sem betur fer olli það ekki manntjóni en það mátti ekki miklu muna. Ennfremur hafa krapaflóð sem komið hafa í bæjargilið m.a. 1948 skapað hættu hér í bæjarfélaginu. Það var því full ástæða til að Ólafsvík tæki þátt í átakinu um gerð ofanflóðavarna. Þá er flóðið sem kom í bæjargilið í september 2008 og olli skemmdum í bæjargilinu ekki gleymt.
Hér í dag fögnum við verklokum við upptakastoðvirki og garð í Tvísteinahlíð og varnir vegna krapaflóða í bæjargilinu. Þar með lítum við svo á að lokið sé gerð og frágangi ofanflóðavarna hér í Ólafsvík. Þessar framkvæmdir eru nú eins og vel sést mikilvægur hluti af bæjarlandslaginu og því var strax í undirbúningi verksins lögð áhersla á útlit varnanna, uppgræðslu og gerð gögnustíga þannig að framkvæmdirnar féllu sem best að umhverfinu og stuðluðu um leið að bættri aðstöðu til útivistar. Það er því von mín að íbúar Ólafsvíkur og aðrir sem sækja bæinn heim muni njóta vel útivistar á svæðinu.
Aðkoma ráðuneytisins að þessum framkvæmdum hér í Ólafsvík hefur fyrst og fremst verið í gegnum Ofanflóðasjóð sem styrkir sveitarfélög til framkvæmda á þessu sviði samkvæmt áætlun um uppbyggingu varnarvirkja. Það er mitt mat að framkvæmd þessi hafi tekist afar vel og er hún öllum þeim sem að henni koma til mikils sóma. Vil ég sérstaklega þakka ráðgjöfum, verktökum og eftirlitsaðilum þeirra störf.
Ágætu íbúar Snæfellsbæjar, við erum hér í dag saman komin til þess að fagna því að gerð þessara varnarvirkja sé lokið og mannvirkin tilbúin til þess að takast á við það hlutverk sitt að tryggja íbúum Ólafsvíkur aukið öryggi gagnvart ofanflóðum.
Ég vil því að lokum óska ykkur öllum til hamingju með þessi mannvirki og vona að þau verði Snæfellsbæ og íbúum Ólafsvíkur til farsældar um ókomna tíð.
Takk fyrir