Hoppa yfir valmynd
21. október 2010 Dómsmálaráðuneytið

Hæfnisnefnd fer yfir umsóknir um embætti ráðuneytisstjóra

Ögmundur Jónasson, dómsmála- og mannréttindaráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, fól í dag þriggja manna hæfnisnefnd að fara yfir umsóknir um embætti ráðuneytisstjóra hins nýja innanríkisráðuneytis. Í nefndinni eiga sæti Arnar Þór Másson, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, sem jafnframt er formaður hennar, Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands, og Ásta Bjarnadóttir, vinnu- og skipulagssálfræðingur.

Í erindisbréfi nefndarinnar segir að nefndin skuli vera ráðherra til fulltingis við undirbúning skipunar í embætti ráðuneytisstjóra innanríkisráðuneytis og skila honum skriflegu mati á hæfni umsækjenda innan þriggja vikna frá skipun nefndar. Umsögninni er ætlað að tryggja að málið sé nægjanlega upplýst áður en ráðherra tekur ákvörðun um skipun í embættið.

Þrettán umsóknir bárust um embættið en umsóknarfrestur rann út 13. október sl. Innanríkisráðuneytið verður til við sameiningu samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis og dómsmála- og mannréttindaráðuneytis hinn 1. janúar 2011. Skipað er í embættið til fimm ára og mun ráðuneytisstjóri taka við embætti 1. janúar 2011 og stýra innanríkisráðuneyti undir stjórn innanríkisráðherra. Fram til þess dags eða þar til nýtt ráðuneyti hefur starfsemi, mun nýr ráðuneytisstjóri vinna að sameiningu ráðuneytanna ásamt sérstakri verkefnisstjórn.

Sjá einnig:

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta