Nr. 62/2010 - Bætt nýting bolfisks
Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra veitti á miðvikudag viðtöku skýrslu frá starfshópi á vegum ráðuneytisins um bætta nýtingu bolfisks. Í tillögum starfshópsins koma fram tíu tillögur til úrbóta við meðferð á bolfiski sem snúa að veiðum og vinnslu.
Í fyrsta kafla er fjallað um almenn atriði sem hópurinn telur að leiði til bættrar nýtingar, s.s aðferðir við blóðgun og fyrstu kælingu. Í öðrum kafla er fjallað um nýtingu ísfiskafla og í þriðja kafla um fullvinnsluskip.
Skýrsla starfshópsins er stutt og greinagóð og hana má nálgast í heild hér.
Á myndinni hér að ofan er starfshópurinn ásamt ráðherra, f.v. talið Gunnar Tómasson frá Þorbirni í Grindavík, Sigurjón Arason frá Matís, Sveinn Hjörtur Hjartarson frá LÍÚ, Hrefna M. Karlsdóttir frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Svavar Svavarsson frá Granda í Reykjavík, Sveinn Margeirsson frá Matís, Guðjón Arnar Kristjánsson frá Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, Jón Eðvald Friðriksson frá Fisk Seafood á Sauðárkróki, formaður starfshópsins og Hjörtur Gíslason frá Ögurvík í Reykjavík. Á myndina vantar Ágúst Torfa Hauksson frá Brim hf í Reykjavík og Ásgeir Gunnarsson frá Skinney-Þinganesi á Höfn.