Ráðherranefnd um jafnréttismál fundar í forsætisráðuneytinu
Ráðherranefnd um jafnréttismál, sem skipuð er forsætisráðherra, fjármálaráðherra, félags- og tryggingamálaráðherra og dómsmála- og mannréttindaráðherra, hélt reglulegan fund í forsætisráðuneytinu föstudaginn 22. október sl. þar sem m.a. var rætt um aðgerðir ríkisstjórnarinnar gegn kynbundu ofbeldi og launamun kynjanna. Ráðherranefndin lýsir yfir stuðningi sínum við aðgerðir sameinaðrar kvennahreyfingar undir merkjum regnhlífarsamtaka þeirra, Skottanna, á kvennafrídaginn, bæði kvennafrí sem ætlað er til að minna á baráttu fyrir launajafnrétti kynjanna og gegn kynbundu ofbeldi.
Á fundinum var ákveðið að tillaga að nýrri framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum verði lögð fyrir Alþingi á næstu vikum. Samkvæmt henni verður efnt til fjölmargra verkefna til þess að efla baráttuna gegn launamuni kynja. Staða verkefnis um kynjaða fjárlagagerð var einnig til umræðu á fundinum. Upplýst var að um 20 tilraunaverkefnum hefur verið ýtt úr vör á vegum ráðuneytanna til að innleiða aðferðir og verkferla við fjárlagagerð þar sem áhrif fjárlaga á kynin eru greind.
Ráðherranefndin fékk skýrslu um framgang aðgerðaáætlunar gegn mansali og starf sérfræði- og samhæfingarteymis um mansal á því ári sem liðið er frá stofnun þess. Á þeim tíma hefur samvinna stjórnvalda við frjáls félagasamtök, sveitarfélög og aðra við að fást við einstök mansalsmál og tryggja fórnarlömbum stuðning og vernd verið árangursrík. Lýsti ráðherranefndin ánægju sinni með að um þrjár af hverjum fjórum aðgerða í áætluninni hafi þegar komist til framkvæmda. Jafnframt var farið yfir fyrirhugaðar tillögur að lagabreytingum til að innleiða hina svokölluðu austurrísku leið um viðbrögð gegn heimilisofbeldi og það starf sem nú fer fram við gerð nýrrar aðgerðaáætlunar gegn kynbundu ofbeldi.