Varnargarðar vígðir í Ólafsvík
Snjóflóðavarnargarðar voru vígðir í Ólafsvík í liðinni viku. Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra fagnaði þessum áfanga með heimamönnum og óskaði þeim til hamingju með að lokið væri gerð og frágangi ofanflóðavarna sem byggðu á nýju hættumati í sveitarfélaginu. Þessar framkvæmdir eru upptakastoðvirki í Tvísteinahlíð og krapaflóðavarnir í bæjargilinu.
Þessar framkvæmdir eru hluti af bæjarlandslaginu og því var lögð áhersla á útlit þeirra, uppgræðslu og gerð göngustíga þannig að þær féllu sem best að umhverfinu og stuðluðu um leið að bættri aðstöðu til útivistar fyrir íbúa og ferðamenn.
Aðkoma umhverfisráðuneytisins að framkvæmdum í Ólafsvík var með Ofanflóðasjóði sem styrkir sveitarfélög til framkvæmda á þessu sviði samkvæmt áætlun um uppbyggingu varnarvirkja. Umhverfisráðherra sagði framkvæmdirnar hafa tekist vel og þær séu öllum þeim sem að þeim koma til mikils sóma. Þakkaði ráðherra ráðgjöfum, verktökum og eftirlitsaðilum fyrir þeirra störf.
Snjóflóð féll úr Tvísteinahlíð árið 1995 og olli verulegum skemmdum á Heilsugæslustöðinni í Ólafsvík. Ennfremur hafa krapaflóð fallið í bæjargilið og skapað hættu í bæjarfélaginu, nú síðast árið 2008.