Hoppa yfir valmynd
28. október 2010 Matvælaráðuneytið

Nr. 65/2010 - Reglugerð um merkingu og rekjanleika erfðabreyttra matvæla og erfðabreytts fóðurs

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs segir að ríkisstjórnin ætli sér að:

“Tryggja að erfðabreytt matvæli séu merkt þannig að neytendum sé ljóst innihald matvæla við innkaup.”

Í samræmi við þessa stefnumörkun sendi ráðuneyti sjávarútvegs- og landbúnaðarmála út drög að reglugerð um merkingu og rekjanleika erfðabreyttra matvæla og erfðabreytts fóðurs.

Undanfarið hafa reglugerðardrögin verið til umsagnar hjá ýmsum aðilum er tengjast þessu máli. Alls hafa borist umsagnir frá 22 aðilum.

Af meginþorra umsagna má ráða að talin er full þörf á reglugerð sem þessari. Augljóst er að hér fara saman hagsmunir neytenda, bænda og matvælafyrirtækja þar sem flestir eru sammála um að neytandinn eigi rétt á upplýstu vali þegar kemur að kaupum á matvælum. Sama gildir um fóður í þessu sambandi.

Bent er á af umsagnaraðilum að reglur þessar muni vera teknar upp í íslenskan rétt innan tíðar á grundvelli EES-samningsins og því sé í sjálfu sér ekkert að vanbúnaði að taka þær strax upp hér á landi.

Niðurstaða ráðuneytisins.

Ráðuneytið hefur ákveðið að setja reglugerð um merkingu og rekjanleika erfðabreyttra matvæla og erfðabreytts fóðurs eftir að nefnd um opinberar eftirlitsreglur hefur tekið hana til meðferðar.

Með reglugerðinni er tryggð merking matvæla sem innihalda erfðabreytt efni þannig að neytendur séu á hverjum tíma upplýstir um innhald matvælanna.

Frestað er um sinn ákvörðun um að taka inn í reglugerð þann þátt í drögunum sem miðar að því að merkja skuli afurðir dýra með tilliti til fóðurs sem þau éta.

Framhald málsins verður falið sérstökum starfshópi á vegum ráðuneytisins. Gert er ráð fyrir að hann skili af sér eigi síðar en 1. janúar 2011. Ráðuneytið telur að í þessu séu fólgnir möguleikar fyrir íslenskan landbúnað og binda góðar vonir við starf þessa hóps.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta