Hoppa yfir valmynd
29. október 2010 Matvælaráðuneytið

Alþjóðleg athafnavika á Íslandi

Yfir 100 þjóðir munu taka þátt í Alþjóðlegri athafnaviku sem haldin verður í þriðja sinn dagana 15. – 21. nóvember næstkomandi. Aldrei áður hafa jafn margar þjóðir tekið virkan þátt í vikunni og gera aðstandendur ráð fyrir að samanlagt verði skipulagðir hátt í 40 þúsund fjölbreyttra viðburða. Markmiðið með vikunni er að hvetja til athafnasemi, frumkvöðlastarfsemi og nýsköpunar um allan heim.

Athafnavikan fer þannig fram að hver sem er getur skipulagt viðburð í vikunni sem þannig verður sjálfkrafa hluti af heildardagskrá vikunnar. Á Íslandi eru þegar fjölmörg fyrirtæki, skólar, stofnanir og einstaklingar sem munu standa fyrir spennandi viðburðum í vikunni og fjölgar þeim stöðugt. Á meðal þeirra viðburða sem þegar eru komnir á dagskrá eru Nýsköpunarmessa Háskóla Íslands, Snilldarlausnir Marel, og alþjóðlegur viðburður sem kallast „Startupweekend“ sem farið hefur sigurför um heiminn og hefur nú þegar verið haldinn í yfir 100 borgum í 30 löndum.

Með fjölbreyttum viðburðum er Athafnavikunni þannig ætlað að blása til jákvæðrar sóknar og hvetja einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir til að festast ekki í neikvæðri umræðu, heldur sýna gott fordæmi og láta verkin tala þegar kemur að uppbyggingu atvinnulífsins og sköpun nýrra starfa á næstu árum.

Sem dæmi um mikilvægi athafnasemi má meðal annars benda á að samkvæmt nýlegri rannsókn* í Bandaríkjunum skapa ný fyrirtæki (innan við ársgömul) yfir 3 milljónir nýrra starfa á ári en störfum hjá eldri fyrirtækjum fækkar að meðaltali um eina milljón á ári hverju. Séu þessar tölur yfirfærðar á íbúafjölda á Íslandi má gera ráð fyrir að ný fyrirtæki geti skapað um 3800 ný störf á hverju ári verði þeim skapað gott og hvetjandi umhverfi. Í sömu rannsókn kemur fram að efnahagskreppur hafa ekki áhrif á sköpun starfa hjá nýjum fyrirtækjum á sama hátt og hjá þeim eldri. Rannsóknin er byggð á gögnum frá bandarískum yfirvöldum en framkvæmd af Kauffman Foundation sem er stærsta stofnun á sviði nýsköpunar- og frumkvöðlastarfsemi í heiminum og einn aðalskipuleggjenda Athafnavikunnar.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta