Hoppa yfir valmynd
29. október 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Ársfundur Vinnumálastofnunar 2010

Ársfundur Vinnumálastofnunar 2010
Ávarp Guðbjarts Hannessonar, félags- og tryggingamálaráðherra


Forstjóri Vinnumálastofnunar, starfsfólk, stjórnarmenn og aðrir góðir gestir.

Ég ætla að byrja mál mitt á því að þakka ykkur hjá Vinnumálastofnun fyrir mikið og gott starf á erfiðum tímum. Það er ekki ofsögum sagt að vinna ykkar hafi verið ein samfelld törn frá hausti ársins 2008. Á skömmum tíma hefur stofnunin og starfsfólk hennar þurft að laga sig að gjörbreyttum aðstæðum, breyta forgangsröðun og takast á við gífurlega erfið og mikilvæg verkefni. Samhliða þessu hafa ýmsar lagabreytingar verið gerðar sem hafa áhrif á verkefni stofnunarinnar og framkvæmd þeirra og allt krefst þetta mikils skipulags og samhæfingar. 

Glíman við atvinnuleysið er það sem öllu máli skiptir. Að sporna við því, vinna gegn neikvæðum afleiðingum þess með því að halda fólki virku, efla það til þátttöku á vinnumarkaði og veita því aðstoð til að ná þar fótfestu á ný.

Átak gegn atvinnuleysi og afleiðingum þess

Forveri minn í embætti félags- og tryggingamálaráðherra óskaði eftir þjóðarátaki gegn atvinnuleysi og ræddi það á ársfundinum hér í fyrra. Hann benti á hvernig Íslendingar hafa tekist á við náttúruhamfarir, þegar opinberir aðilar og sjálfboðasamtök vinna saman til þess að aðstoða fólk og bjarga verðmætum. Þannig þyrfti að taka á atvinnuleysisvandanum með samvinnu þessarar stofnunar og annarra opinberra stofnana, aðila vinnumarkaðarins, Rauða krossins, íþróttahreyfingarinnar og fjölmargra annarra.

Ég tel að þetta hafi gengið eftir. Í samstarfi við fjölmarga aðila hefur Vinnumálastofnun staðið að ýmsum átaksverkefnum sem hafa skilað góðum árangri. Þar má nefna verkefnið starfsorku, átakið ungt fólk til athafna, átaksverkefnið 856 ný störf og ÞOR – þekking og reynsla. Ég geri ráð fyrir að flest ykkar sem hér sitjið þekkið til þessara verkefna og hversu vel þau hafa tekist. Þá er ótaldir fjölmargir samningar um starfsþjálfun og reynsluráðningu.

Atvinnuleysi ungs fólks og langtímaatvinnuleysi er það sem við óttumst mest, enda geta afleiðingarnar verið dýrkeyptar fyrir einstaklingana sem fyrir því verða og fyrir samfélagið í heild til skemmri og lengri tíma litið.

Þess vegna tel ég einkar mikilvægt hversu vel hefur gengið að ná því markmiði okkar að aldrei skuli líða lengri tími en þrír mánuðir frá því að einstaklingur missir atvinnu og þar til honum er boðið starf, námstækifæri, starfsþjálfun eða þátttaka í öðrum verðugum vinnumarkaðsúrræðum. Stofnunin náði þessu markmiði að því er varðar unga fólkið síðastliðið vor en þegar hefur tekist að virkja um 90% úr hópi atvinnuleitenda á aldrinum 16–25 ára. Mér er kunnugt um að stofnunin haldi ótrauð áfram að ná markmiðinu og hefur hún þegar náð til allra sem hafa verið tíu mánuði eða lengur án atvinnu.

Atvinnuleysi einstakra hópa

Við þurfum að vera vel vakandi yfir stöðu einstakra hópa sem eru án atvinnu. Áhersla hefur verið lögð á að virkja unga fólkið en jafnframt þarf að líta til þess að töluverður fjöldi atvinnuleitenda er af erlendu bergi brotinn. Margir úr þeim hópi hafa ef til vill ekki gott vald á íslensku og eiga því ekki gott með að nýta sér almenn vinnumarkaðsúrræði sem í boði eru. Að þessu þurfum við að gæta sérstaklega.

Kynbundið atvinnuleysi

Einnig þarf að huga að fjölda kvenna og karla meðal atvinnuleitenda. Atvinnuleysi jókst mun hraðar meðal karla en kvenna í upphafi og voru karlar fjölmennari en konur á atvinnuleysisskrá í fyrsta skipti frá árinu 1986. Dregið hefur saman með fjölda kvenna og karla í atvinnuleit og var atvinnuleysi í september síðastliðnum 7,2% meðal karla og 6,9% meðal kvenna.

Við þurfum að vera vakandi fyrir þessum breytingum og velta fyrir okkur orsökum og afleiðingum með það að markmiði að bregðast við með viðeigandi hætti. Við vitum að vinnumarkaðurinn er kynbundinn sem leiðir einnig til þess að körlum og konum hentar ekki alltaf sömu vinnumarkaðsúrræðin. Hins vegar megum við ekki missa sjónar af þeim tækifærum sem leynast við þessar aðstæður til að brjóta upp hefðir í þessu sambandi og sporna við kynbundnu starfsvali. Bið ég ykkur að huga sérstaklega vel að þessu sem vinnið að virkum vinnumarkaðsúrræðum.

Staðbundið atvinnuleysi

Staða atvinnulífsins er misjafnt eftir svæðum á landinu. Ég hef áður lýst því yfir að ég hef áhyggjur af aðstæðum á Suðurnesjum en atvinnuleysi þar hefur verið yfir landsmeðaltali allt frá árinu 2002 og stefnir í að það verði um 5% yfir landsmeðaltali á þessu ári.

Vinnumálastofnun hefur átt í margþættu samstarfi við ýmsa aðila um virkni atvinnuleitenda á svæðinu en stór hluti þeirra hefur þegar tekið þátt í einhvers konar virkum vinnumarkaðsaðgerðum. Við þurfum að standa vaktina og skoða alla möguleika til sértækra aðgerða sem að gagni geta komið fyrir fólkið á svæðinu, hvort sem um er að ræða fjölgun starfa eða skuldamál heimilanna.

Skýrsla Norðurlandaráðs

Nú er nýútkomin skýrsla á vegum Norðurlandaráðs um stöðu ungs fólks á Norðurlöndunum sem misst hefur atvinnuna. Skýrslan var gerð samkvæmt ákvörðun norrænna atvinnu- og menntamálaráðherra að frumkvæði þáverandi félags- og tryggingamálaráðherra, Árna Páls Árnasonar. Ég hvet ykkur öll til að kynna ykkur efni hennar því þarna er birt vönduð greining á stöðunni hjá einstökum þjóðum og fjallað um áherslur þeirra og úrræði til að takast á við vandann.

Hættan er mest hjá þeim sem hafa stutta skólagöngu að baki, þeim sem komast ekki inn á vinnumarkaðinn að skólagöngu lokinni eða missa vinnu eftir mjög skamman tíma á vinnumarkaði. Félagsleg og sálræn vandamál samfara atvinnuleysi eru þekkt og vandi fólks eykst, því lengur sem það er án atvinnu. Þessu fólki getur reynst mjög erfitt að ná fótfestu á vinnumarkaði, jafnvel þótt atvinnuástand batni og næg störf séu í boði.

Starfsendurhæfing

Í ljósi þessa er þýðingarmikið að fólki standi til boða öflug atvinnutengd endurhæfing sem í daglegu tali er nefnd starfsendurhæfing. Við verðum að horfast í augu við að þessi tegund vinnumarkaðsúrræða verður sífellt mikilvægari við þær aðstæður sem við búum við í dag. Ég hef sett mér það markmið að koma þeim málum í betri farveg en verið hefur en í því felst meðal annars að styrkja hlutverk Vinnumálastofnunar hvað þetta varðar. Þarna trúi ég einnig að stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins geti unnið vel saman að sameiginlegum markmiðum.

Jafnir möguleikar fólks til þátttöku í vinnumarkaðsúrræðum

Sú venja hefur skapast að þeir sem eru tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins eigi greiðan aðgang að fjölbreyttum úrræðum á vegum Vinnumálastofnunar enda eru vinnumarkaðsúrræði að meginstefnu til fjármögnuð af Atvinnuleysistryggingasjóði. Aðrir hafa ekki átt sömu möguleika til þátttöku í vinnumarkaðsúrræðum.

Ég átta mig á ástæðu þessa en tel engu síður mikilvægt að ráðuneytið, Vinnumálastofnun, samtök aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélögin skoði hvort ekki sé unnt að finna farsæla lausn á þessu þannig að unnt sé að greiða leið allra að vinnumarkaðsúrræðum sem þurfa á þeim að halda óháð því hvar viðkomandi fær greidda framfærslu. Ég veit að þetta er markmið laganna frá 2006 og allir eru sammála um. Hagur þessa fólks og heildarhagur samfélagsins fer þarna saman að mínu mati. Við eigum að fjárfesta í fólki og þeim fjármunum er ótvírætt vel varið sem koma í veg fyrir að hópur fólks verði afskiptur og óvinnufær til frambúðar.

Atvinnumál fólks með fötlun

Fyrir liggur að atvinnumál fólks með fötlun munu flytjast formlega til Vinnumálastofnunar um næstu áramót með flutningi málefna fólks með fötlun til sveitarfélaganna. Flutningur atvinnumála fólks með fötlun til Vinnumálastofnunar hefur verið í undirbúningi um nokkurn tíma en vinna hefur tafist vegna aðkallandi verkefna sem enga bið þoldu. Nú þarf að reka smiðshöggið á verkið svo af flutningnum geti orðið um næstu áramót.

Endurskoðun laga um atvinnuleysistryggingar

Góðir gestir.

Nú er að störfum samráðshópur stjórnvalda með samtökum aðila vinnumarkaðarins þar sem skoðuð er reynsla af framkvæmd laganna um atvinnuleysistryggingar. Á heildina litið er það mat manna að lögin hafi reynst vel. Ýmis atriði eru þó þar til skoðunar, þar á meðal bráðabirgðaákvæði sem sett var um hlutabætur fyrir tveimur árum.

Rætt hefur verið um að lengja tímabilið sem fólk á rétt til atvinnuleysisbóta. Ég hef þegar sagst reiðubúinn að lengja það úr þremur árum í fjögur. Áætlað er að kostnaðarauki Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna þessa verði um einn milljarður króna á næsta ári. Á móti kemur að þetta mun létta byrðar sem annars lentu hugsanlega á sveitarfélögunum. Í tengslum við þetta vil ég ræða við sveitarfélögin um mögulega hækkun framfærsluviðmiða þar sem sá hópur sem þarf alfarið að treysta á framfærslu sveitarfélaganna er í afar erfiðri stöðu.

Sameining stofnana

Um skeið hefur staðið yfir undirbúningur að sameiningu Vinnumálastofnunar og Vinnueftirlits ríkisins í samræmi við frumvarp til laga um Vinnumarkaðsstofnun sem lagt var fyrir Alþingi í mars á þessu ári. Ég veit að það er til mikils ætlast af starfsfólki sem er hlaðið verkefnum að taka samtímis öðrum störfum þátt í allri þeirri vinnu sem fylgir sameiningu stofnana ef vel á að takast. Ég vil því þakka ykkur sérstaklega fyrir að hafa fundið ykkur tíma til að vinna að þessu máli í samvinnu við starfsfólk Vinnueftirlitsins og ráðuneytisins.

Eins og þið vitið er skammt stórra högga á milli nú um stundir og fyrir liggur ákvörðun um sameiningu ráðuneyta, meðal annars félags- og tryggingamálaráðuneytisins og heilbrigðisráðuneytisins. Sú sameining tekur gildi um næstu áramót og í ljósi vinnunnar sem fylgir þeim undirbúningi var ákveðið að fresta um hríð frekari sameiningarvinnu vegna nýrrar Vinnumarkaðsstofnunar. Þau áform hafa ekki verið slegin út af borðinu en auðvitað verða mál nýs ráðuneytis skoðuð í heild sinni þegar velferðarráðuneytið tekur til starfa. Farið verður yfir verkefni allra stofnana þess ráðuneytis með samþættingu og sameiningu í huga. Sjálfur hef ég miklar væntingar til sameiningar ráðuneytanna og er sannfærður um að hún muni skapa margvísleg tækifæri til góðra verka. Mörg verkefni ráðuneytanna tveggja eru það skyld að ég sé þeim betur borgið undir hatti eins ráðuneytis til að draga úr skörun og togstreitu og til þess að auka samfellu í þjónustu í þágu þeirra sem þurfa hennar með.

Ég nefndi hér í upphafi að starfsfólk Vinnumálastofnunar hafi unnið samfellda vinnutörn frá haustinu 2008. Þessari törn er því miður ekki lokið. Það gætir alltaf árstíðarsveiflna í atvinnuástandinu og reynslan kennir okkur að atvinnuleysi eykst jafnan á þessum tíma. Sem betur fer hafa spár um atvinnuleysi ekki gengið eftir og atvinnuleysi verið minna en óttast var í fyrstu. Jafnframt er útlit fyrir að það verði minna árið 2010 en reiknað var með í byrjun árs. Ef fer sem horfir mun draga úr atvinnuleysinu jafnt og þétt á næstu árum og gera spár ráð fyrir að það verði komið niður í 4,8% árið 2014.

Góðir gestir.

Við munum ná jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Okkur mun takast að koma á eðlilegu samspili tekna og gjalda – en það tekur tíma og það kostar vissulega ýmsar fórnir. Enn hefur ekkert verið ákveðið hvernig ná eigi þeim sparnaðarkröfum sem fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir í þeim efnum en vonandi munu tillögur liggja fyrir á næstu dögum.

Verkefnin sem eru framundan eru ærin. Við þurfum að snúa vörn í sókn, snúa atvinnuleysinu okkur í hag og skapa úr því tækifæri til að efla og bæta menntun fólks á fjölbreyttum sviðum. Þannig getum við unnið í haginn fyrir komandi kynslóðir, skapað öflugt atvinnulíf og orðið færari en ella til að takast á við framtíðina.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta