Hoppa yfir valmynd
29. október 2010 Forsætisráðuneytið

Starfshópur um fækkun sjálfstæðra úrskurðarnefnda.

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að setja á fót starfshóp ráðuneyta undir forustu forsætisráðuneytisins sem falið verði að móta stefnu og semja viðmiðunarreglur um það í hvaða tilvikum sjálfstæðar úrskurðarnefndir eigi rétt á sér. Starfshópnum verði jafnframt falið að gera tillögur í formi lagafrumvarps um fækkun sjálfstæðra úrskurðarnefnda í samræmi við framsetta stefnumótun og leiðbeiningarreglur.

Úrlausn kærumála er hefðbundið og klassískt verkefni ráðuneyta og mikilvægur þáttur í lögbundnu eftirliti þeirra með þeim stofnunum sem undir það heyra, sbr. 9. gr. laga um Stjórnarráð Íslands. Í kærumálum reynir á framkvæmd þeirra laga sem eru á málefnasviði viðkomandi ráðuneytis sem og stjórnsýsluframkvæmd stofnana. Þannig geta kærumál gefið mikilvægar upplýsingar um ágalla á löggjöf og hvort tilefni sé fyrir ráðuneyti í krafti eftirlitsskyldna sinna til að aðhafast gagnvart undirstofnun vegna stjórnsýsluframkvæmdar hennar. Við meðferð og úrlausn kærumála öðlast starfsmenn ráðuneyta einnig mikilvæga þekkingu og færni í beitingu löggjafar á málefnasviði ráðuneytisins sem og á stjórnsýsluframkvæmd þeirra stofnanna sem undir ráðuneytið heyra.

Á síðustu árum, og þá einkum á árabilinu á milli 1994 og 2002, færðist það mjög í vöxt að úrskurðarvald ráðuneyta væri fært frá þeim til sjálfstæðra úrskurðarnefnda og eru nú á sjötta tug slíkra nefnda starfandi. Þá hefur úrskurðarvald einnig verið fært frá ráðuneytum til sjálfstæðra stjórnsýslustofnana. Ekki verður séð að nein almenn stefnumótun hafi legið að baki þessari þróun og afar mismunandi er hvaða rök hafa verið færð fram fyrir breytingum af þessu tagi ef nokkur. Þó virðist sem tilgangur slíkra breytinga hafi í einhverjum tilvikum verðið sú að fjarlæga úrskurðarvaldið frá hinu pólitíska valdi ráðherra. Þá hefur það einnig verið talinn kostur að geta fengið nefndarmenn til setu í úrskurðarnefndum með sérþekkingu sem ekki er til staðar í ráðuneyti.

Þótt gildar röksemdir geti verið fyrir stofnun sjálfstæðra úrskurðarnefnda á vissum sviðum eru rökin vandséð á öðrum. Megin galli sjálfstæðra úrskurðarnefnda er það rof sem verður á stjórnsýslusambandi milli hins lægra setta stjórnvalds og ráðuneytis og ráðherra. Ráðherra ber ekki ábyrgð á úrskurðarnefndum. Ábyrgðarkeðjan er með öðrum orðum slitin sem birtist m.a. í því að það svarar engin fyrir stjórnsýslu úrskurðarnefnda til Alþingis. Er þessi framkvæmd í raun í andstöðu við ákvæði 14. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir að ráðherrar beri ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum enda þótt talið verði að tiltekin stjórnskipunarvenja hafi myndast í áranna rás sem réttlæti tilveru slíkra nefnda. Annar veigamikill ágalli er það þekkingar og mannauðstap sem fylgir því þegar úrskurðarvald er útvistað frá ráðuneytum. Má fullyrða að sú mikla fjölgun sjálfstæðra úrskurðarnefnda á síðustu árum hafi orðið til þess að veikja hið almenna stjórnsýsluhlutverk ráðuneytanna enda hefur það fjármagn og sá mannauður sem þarf til að sinna þessum verkefnum flust frá þeim til nefndanna en töluverðir fjármunir renna nú til greiðslu þóknana til nefndarmanna í slíkum nefndum.

Ein af megin niðurstöðum rannsóknarnefndar Alþingis að því er stjórnsýsluna varðar er sú að styrkja þurfi ráðuneytin og mannauð þeirra. Er ljóst að ráðuneytin eru, m.a. vegna smæðar sinnar, veik og illa í stakk búin til að takast á við sífellt fleiri og flóknari stjórnsýsluverkefni. Þá er ljóst að möguleikar til sérhæfingar innan lítilla og fámennra ráðuneyta eru litlir. Var það m.a. tillaga starfshóps forsætisráðherra um viðbrögð við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að brugðist yrði við þessari gagnrýni rannsóknarnefndar Alþingis með því að fækka sjálfstæðum úrskurðarnefndum og flytja úrskurðarvaldið í meira mæli á ný inn í ráðuneytin.

Endurskoðun og fækkun sjálfstæðra úrskurðarnefnda með flutningi á úrskurðarvaldinu aftur inn í ráðuneytin er liður í þeim áformum ríkisstjórnarinnar, ásamt sameiningu ráðuneyta, að styrkja og efla ráðuneytin sem öflugar stjórnsýslustofnanir í þágu almannahagsmuna.

Reykjavík 29. október 2010

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta