Hoppa yfir valmynd
1. nóvember 2010 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Árangursríkur fundur um líffræðilega fjölbreytni

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra ávarpar ráðherrafund í Nagoya.
Í Nagoya

Árangursríkum ársfundi aðildarríkja samningsins um líffræðilega fjölbreytni lauk á föstudag með samkomulagi um framkvæmd samningsins til ársins 2020 og um réttláta skiptingu hagnaðar af nýtingu erfðaauðlinda. Fundurinn var haldinn í Nagoya í Japan dagana 18. til 29. október. Um 18.000 fulltrúar sóttu fundinn frá 193 aðildarþjóðum samningsins, öðrum ríkjum, alþjóðlegum stofnunum, samtökum, fyrirtækjum og borgum.

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra leiddi samninganefnd Íslands á fundinum og ávarpaði sérstakan ráðherrafund samningsins fyrir Íslands hönd. Umhverfisráðherra segir að í Nagoya hafi náðst mikilvægur áfangi í þágu lífs á jörðinni. Með samkomulaginu freisti þjóðir heims þess að stöðva fækkun tegunda en hún sé mun hraðari en áður hafi verið spáð.

Framkvæmd samningsins til 2020

Á ársfundinum náðist samkomulag um framkvæmd samningsins um líffræðilega fjölbreytni næstu tíu árin. Samkomulagið felur í sér tuttugu markmið, þar á meðal að dregið verði úr eyðingu búsvæða um 50-100%, 15% laskaðra svæða verði endurheimt og að verndarsvæði verði stækkuð þannig að þau nái yfir 17% þurrlendis og 10% hafsvæða. Samþykkt var að aðildarríki samningsins bæti markmiðunum við þjóðaráætlanir um líffræðilega fjölbreytni innan tveggja ára. Þá náðu aðildarríkin samkomulagi um að auka verulega við fjárveitingar til framkvæmdar samningsins í þróunarlöndunum. Þar á meðal tilkynnti Naoto Kan, forsætisráðherra Japan, um tveggja milljarða dala framlag japönsku ríkisstjórnarinnar til framkvæmdar samningsins. Þar að auka lýstu Frakkland, Evrópusambandið og Noregur því yfir að þau myndu greiða viðbótarframlag til samningsins.

Bókun um erfðaauðlindir

Á fundinum náðist sögulegt samkomulag um bókun við samninginn sem fjallar um aðgang að erfðaauðlindum og skiptingu hagnaðar sem hlýst af nýtingu þeirra. Í bókuninni eru settar  alþjóðlegar samræmdar reglur um það hvernig ríki veita fyrirtækjum, stofnunum og vísindamönnum aðgang að erfðaauðlindum. Einn af mikilvægustu þáttum bókunarinnar fjallar um að tryggja ríkjum sem veiti aðgang að erfðaauðlindum, sem og frumbyggjum og samfélögum frumbyggja sem hafa nýtt og búa yfir þekkingu á erfðaauðlindum, hlutdeild í hagnaði sem skapast af nýtingu erfðaauðlinda og markaðssetningu afurða þeirra.

Með samþykkt Nagoya bókunarinnar lauk margra ára samningaviðræðum um gildistöku þriðja markmiðs samningsins um erfðaauðlindir. Búist er við að bókunin verði opnuð til undirritunar í febrúar 2011. Hún tekur gildi sem bindandi alþjóðlegur samningur 90 dögum eftir að 50 ríki hafa fullgilt hana.

Sendinefnd Íslands á fundnum skipuðu Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra, Sigurður Á. Þráinsson, líffræðingur í umhverfisráðuneytinu, Stefán Lárus Stefánsson, sendiherra Íslands í Japan og Ásta Einarsdóttir, lögfræðingur í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta