Framsýni og nýsköpun í Norræna húsinu
Á norrænum vettvangi er nú mikil umræða um þá fjölbreyttu möguleika sem nýsköpun og framsýn hugsun, m.a. í ferðamálum, orkugeiranum og heilbrigðisþjónustu, geta skapað fyrir efnahagslífið á Norðurlöndunum. Mánudaginn 1. nóvember klukkan 18 bjóða Norræna nýsköpunarmiðstöðin og Iðnaðarráðuneytið til umræðu um málefnið frá íslenskum sjónarhóli í Norræna húsinu.
Nýsköpun og sjálfbær verðmætasköpun
Viðburðurinn er upphitun fyrir þing Norðurlandaráðs sem fram fer í Reykjavík 2.-4. nóvember. Gert er ráð fyrir þátttöku fjölda norrænna stjórnmálamanna og aðila sem starfa að íslenskri nýsköpun.
Rætt verður um mikilvægi þess að stuðla að hvetjandi starfsumhverfi fyrir frumkvöðla á Norðurlöndunum og um það hvernig sameiginleg norræn nýsköpunarstefna getur skilað íslenskum fyrirtækjum árangri og skapað ný störf.
Meðal dagskrárliða er kynning Bryndísar Skúladóttur frá Samtökum iðnaðarins á þátttöku Íslands í norræna samvinnuverkefninu NETS. Verkefninu er ætlað að stuðla að uppbyggingu öflugs tengslanets fyrirtækja sem vinna að þróun og markaðssetningu á umhverfisvænni tækni.
Þátttakan í verkefninu var kveikjan að stofnun Samtaka fyrirtækja í grænni tækni, Clean Tech Iceland, íslensks tengslanets sem meðal annars hefur að markmiði að auka aðgengi að þekkingu og tækifærum utan landsteinanna. Fjallað verður um kosti þess að efla samvinnuna enn frekar og nýta þannig þá fjölbreyttu þekkingu sem hinn umhverfisvæni iðnaður á Norðurlöndunum býr yfir.
Áhrif nýnorrænnar matargerðar
Nýnorræn matargerð er dæmi um samstarf landanna sem skilað hefur ótrúlegum árangri og vakið athygli á heimsvísu. Fjöldi veitingastaða sem sérhæfa sig í notkun norræns gæðahráefnis hefur aukist mjög síðustu ár og haft jákvæð áhrif á efnahagslíf og ferðamennsku á ýmsum svæðum á Norðurlöndunum.
Rögnvaldur J. Sæmundsson, forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar HR í nýsköpunar- og frumkvöðlafræðum, mun kynna verkefnið EXPLORE, sem fjallar um þau svæðisbundnu áhrif sem þróun nýnorrænu matargerðarlistarinnar og stofnun veitingastaða sem byggja á hugmyndafræðinni hefur haft.
Eftir umræðuna verður móttaka í kjallara Norræna hússins þar sem meðal annars verður boðið upp á sýnishorn af hinni margrómuðu nýnorrænu matargerð.
Helstu upplýsingar um viðburðinn
Staður: Norræna húsið
Stund: Mánudagur 1. nóvember kl. 18-19.
Dagskrá
- Kynningarræða
Sveinn Þorgrímsson, skrifstofustjóri á sviði nýsköpunar og þróunar í Iðnaðarráðuneytinu. - Framkvæmd og kostir Norrænnar nýsköpunarstefnu
Ivar H. Kristensen, framkvæmdastjóri Norrænu nýsköpunarmiðstöðvarinnar. - Áhrif metnaðarfullra Norrænna veitingastaða á svæðisbundna þróun í dreifbýli
Rögnvaldur J. Sæmundsson, forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar HR í nýsköpunar- og frumkvöðlafræðum, kynnir verkefnið EXPLORE sem er fjármagnað af Norrænu nýsköpunarmiðstöðinni. - Hnattvæðing íslenskra fyrirtækja
Bryndís Skúladóttir, forstöðumaður umhverfismála hjá Samtökum iðnaðarins, heldur erindi um það hvernig íslensk nýsköpunarfyrirtæki ná árangri á alþjóðlegum vettvangi, með sérstaka áherslu á vistvænan iðnað.
Nánari upplýsingar veita:
Melita Ringvold Hasle
Kynningarfulltrúi Norrænu nýsköpunarmiðstöðvarinnar
Sími: +47 9512 1983
[email protected]
Sigríður Þormóðsdóttir
Nýsköpunarráðgjafi hjá Norrænu nýsköpunarmiðstöðinni
Sími: +47 9157 6577
[email protected]