KreaNord
Samstarf Norðurlandanna um skapandi greinar hófst árið 2008 með stofnun þverfaglega stýrihópsins KreaNord en hópurinn samanstendur af fulltrúum atvinnu- og menningarráðuneyta á Norðurlöndunum. Árið 2010 fékk vinnuhópurinn sterkari stöðu og var breytt í stýrihóp sem vinna á að stefnumótandi atriðum og með þeim tengja saman skapandi greinar norðurlandanna. KreaNord tengist breiðum hópi skapandi aðila innan landana en skipaðir voru svokallaðir bakhópar með fulltrúum skapandi greina hvers lands sem tryggja tengsl við greinarnar.
Í lok október samþykktu norrænu iðnaðarráðherrarnir sameiginleg stefnumið norðurlandanna á sviði skapandi greina.
Stefnumiðin eru þrjú og byggja á þeim gildum að skapandi greinar séu hvatar fyrir vöxt, starfasköpun og nýsköpun á Norðurlöndum. Samstarf Norðurlandanna á sviði skapandi greina mun stuðla að styrkingu samkepnishæfni, bæta alþjóðlega stöðu greinanna og efla möguleika þeirra sem hluta af verðmætasköpun hefðbundins iðnaðar.
Stefnumiðin eru:
1. Efla markvisst samstarf og skoðanaskipti milli menningar og skapandi atvinnugreina á Norðurlöndunum ásamt eflingar á samstarfi við aðrar greinar atvinnulífsins til að stuðla að virðisauka, nýsköpun og vexti
Lagt er til að eflt verði samstarf aðila á sviði skapandi atvinnugreina á Norðurlöndunum til að miðla þekkingu og reynslu og á þann hátt að styrkja stöðu þeirra á sviði útflutnings. Ennfremur verði hvers konar greiningu á stöðu greinanna styrkt m.a. um framlag þeirra til atvinnuuppbyggingar og hagræns vaxtar.
2. Efla ný tækifæri á aðgangi að alþjóðamörkuðum, fjármögnun og laða erlenda fjárfestingu að menningar og skapandi greinum á Norðurlöndunum.
Lagt er til að kannað verði hvort hægt er að koma á fót tengslaneti fyrir norræna „fjárfestingarengla“ ásamt öðrum aðilum sem styðja við skapandi atvinnugreinar til að undirbúa betur jarðveginn fyrir auknar fjárfestingar í skapandi atvinnugreinum. Ennfremur verði fjárfestingarkostir kortlagðir til að auka aðgengi að gagnkvæmum upplýsingum um fjárfesta og fjárfestingarkosti.
3. Efla hlut menningar og sköpunar í öllum stigum menntunar á Norðurlöndunum og efla frumkvöðlafræðslu og viðskiptamenntun í menningar og listnámi
Lagt er til að ýtt verði undir að frumkvöðlafræðsla og viðskiptaþekking verði sterkari þáttur í listnámi og stuðla að frekara samstarfi menntastofnana á Norðurlöndunum á þessu sviði.
4. Á fundi Norrænu ráðherranefndarinnar um iðnaðarmál voru ofangreind stefnumið samþykkt ásamt því að fjórða stefnumiðinu var bætt við um sameiginlegan markað á Norðurlöndum fyrir menningar og skapandi greinar, frekari útfærsla liggur ekki fyrir.