Össur fundar með utanríkisráðherra Rússlands
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra átti í dag formlegan fund ásamt sendinefnd með Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, og sjö manna fylgdarliði. Fundurinn fór fram í Osló.
Á fundinum lýstu báðir ráðherrarnir eindregnum vilja til að efla samstarf Rússlands og Íslands á ýmsum sviðum, og lögðu sérstaka áherslu á orkumál og samvinnu um málefni Norðurslóða.
Utanríkisráðherra lýsti þeirri afstöðu Íslands að Ísland bæri að skoða sem strandríki, þar sem umtalsverður hluti af efnahagslögsögu þess liggur norðan heimskautsbaugs. Hann lýsti andstöðu Íslands við að tiltekin ríki, þ.e.a.s. Kanada, Bandaríkin, Rússland, Noregur og Danmörk, héldu sérstaka fundi um norðurslóðir utan Norðurskautsráðsins.
Ráðherrarnir voru sammála um að styrkja bæri Norðurskautsráðið sem vettvang fyrir málefni norðurslóða.
Utanríkisráðherrarnir ræddu jafnframt ítarlega undirbúning samnings um nútímavæðingu samskipta ríkjanna.
Báðir lögðu þeir Sergei Lavrov og Össur Skarphéðinsson áherslu á samvinnu á sviði jarðhitavinnslu, sérstaklega í svæðum einsog Kamtsjatka, þar sem mikinn jarðhita er að vinna. Pútín forsætisráðherra lagði í síðustu viku blessun sína yfir samvinnuverkefni sem er í mótun milli íslenskra og rússneskra aðila um virkjun jarðhita í stórum stíl á Kamtsjatka en málið hafði verið rætt ítarlega í heimsókn Sergeis Shmatko orkumálaráðherra Rússlands til Íslands í síðasta mánuði.
Á fundinum í dag lagði utanríkisráðherra Rússlands jafnframt áherslu á að önnur svæði í Rússlandi hefðu áhuga á íslenskri tækni á þessu sviði. Ráðherrarnir voru sammála um að samvinna ríkjanna í jarðhitamálum í framtíðinni gæti einnig náð til þriðju ríkja.
Össur Skarphéðinsson tók upp möguleg viðskipti með þjónustu sem tengist loftferðum, sem Rússar hafa vaxandi þörf fyrir, og íslensk fyrirtæki gætu sinnt. Var ákveðið að embættismenn könnuðu möguleika á þessu sviði nánar hið fyrsta.
Íslenski ráðherrann ræddi einnig samning við Rússland um ættleiðingar, sem hefur verið í undirbúningi milli ríkjanna, og tók rússneski starfsbróðir hans vel í það, og taldi mögulegt að gera slíkan samning að formsatriðum og tæknilegum skilyrðum uppfylltum.
Þá ræddu ráðherrarnir samskipti Atlantshafsbandalagsins og Rússa. Utanríkisráðherra ítrekaði það sjónarmið Íslands, sem áður hefur komið fram opinberlega, að jákvætt væri í þágu öryggissjónarmiða að samskiptin yrðu sem mest.
Ráðherrarnir ræddu stuttlega um aðild Rússa að Alþjóðaviðskiptastofnuninni en viðræðum um inngöngu þeirra hefur verið stýrt af Stefáni Hauki Jóhannessyni sendiherra.