Fundað með fulltrúum allra flokka um samstarf í atvinnumálum
Forsætisráðherra og fjármálaráðherra áttu í dag fund með fulltrúum stjórnarandstöðunnar um mótun samstarfsvettvangs um samstarfsáætlun í atvinnu- og vinnumarkaðsmálum í samræmi við samþykkt ríkisstjórnarinnar frá sl. föstudag. Ríkisstjórnin mun áfram vinna að framgangi verkefnisins og kalla eftir aðkomu annarra hagsmunaaðila á næstu dögum. Aftur verður fundað með stjórnarandstöðunni nk mánudag.
Tilgangur með áætluninni er að auka samráð og samvinnu allra stjórnmálaflokka sem fulltrúa eiga á Alþingi og hagsmunaðila og tryggja með því að náð verði sameiginlegum markmiðum um öflugt atvinnulíf og samfélag um allt land. Samkvæmt samþykkt ríkisstjórnarinnar er m.a. lagt upp með að aðgerðirnar tryggi 3 – 5% hagvöxt og a.m.k. 3.000 - 5.000 ný störf hér á landi strax á næsta ári auk viðamikilla vinnumarkaðsaðgerða fyrir atvinnulausa .
Gert er ráð fyrir því að settur verði á laggirnar samtarfsvettvangur stjórnmálaflokka, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samtaka atvinnulífsins, Alþýðusambands Íslands, Bandalags háskólamanna, BSRB, Kennarasambands Íslands, Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja og Bændasamtaka Íslands. Samráð verði jafnframt haft við nefndir Alþingis sem fjalla um atvinnu- og vinnumarkaðsmál eftir því sem tilefni er til.
Forsætisráðherra mun á næstu dögum ræða við aðra hagsmunaaðila um þátttöku þeirra í verkefninu.