Skýrsla um nytjaskógrækt
Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra veitti í dag, 2. nóvember 2010, viðtöku skýrslu nefndar um mörkun langtímastefnu íslenskrar nytjaskógræktar. Í skýrslunni kemur fram að síðustu 20 ár hefur nytjaskógrækt verið ört vaxandi búgrein sem skilar nú af sér umtalsverðum afurðum og er um leið aflmikil mótvægisaðgerð gegn uppsöfnun gróðurhúsalofttegunda.
Þannig er talið að grisjun og aðrar nytjar skógræktar landshlutaverkefnanna sem þegar er kominn í jörð skili á næsta áratug um 7 þúsund rúmmetrum á ári að meðaltali en talan muni svo hækka jafnt og þétt og fara yfir 47 þúsund rúmmetra á ári innan 100 ára. Því til viðbótar mun borðviður falla til í verulegum mæli frá miðri öldinni og fara um aldamótin 2100 nálægt 100 þúsund rúmmetrum. Þá er kolefnisbinding nytjaskóganna talin veruleg en hún hefur verið áætluð 2,9 milljónir tonna koltvísýrings fram til ársins 2020 og nái samtals 11 milljónum tonna á næstu 100 árum.
Í kjölfar efnahagshruns hefur orðið verulegur samdráttur á fjárveitingum hins opinbera til hinna landshlutabundnu skógræktarverkefna. Það er mat nefndarinnar að leita verði allra leiða til að sem minnst dragi úr skógrækt við þessar aðstæður.
Með landshlutabundnum skógræktarverkefnum hefur tekist að byggja upp mikilsverða búgrein og skapa jákvæð viðhorf gagnvart skógrækt. Áratuga reynsla af verkefninu er góð en í skýrslunni er ennfremur bent á liði sem má bæta í framkvæmd nytjaskógræktar.
Ráðherra tekur við skýrslunni úr hendi Jóns Birgis Jónssonar formanns nefndarinnar. Aðrir á myndinni eru f.v. Níels Árni Lund ritari nefndarinnar, Valgerður Jónsdóttir framkvæmdastjóri Norðurlandsskóga og Þorsteinn Tómasson skrifstofustjóri í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti. Auk þeirra sátu í nefndinni Aðalsteinn Sigurgeirsson forstöðumaður rannsóknarstöðvar Skógræktar ríkisins á Mógilsá, Áslaug Helgadóttir prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands, Svana Halldórsdóttir bóndi, Edda Björnsdóttir skógarbóndi, Jón Geir Pétursson skógfræðingur, Jón Loftsson skógræktarstjóri og Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri.