Vegna hugsanlegrar skráningar flugvéla á vegum E.C.A á Íslandi
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur haft til skoðunar álitsgerð frá Flugmálastjórn dags. 24. september sl. varðandi möguleika á starfrækslu fyrirtækisins E.C.A. Program Ltd. á sérhæfðum þotum, sem hannaðar eru til hernaðar, í kennslu og þjálfunarskyni hér á landi.
Forsaga málsins
Mál þetta hefur verið til athugunar í allnokkurn tíma, en fyrirtækið E.C.A Program Ltd. kynnti fyrst hugmyndir sínar um að skrá og starfrækja hér á landi Sukhoi SU-30 flugvélar til þjálfunar og æfinga. Í áliti Flugmálastjórnar til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins þann 19. febrúar 2010 er bent á að ekki sé útilokað að skrá slík loftför sem borgaraleg og starfrækja hérlendis að uppfylltum ýmsum skilyrðum. Benti Flugmálastjórn m.a. á að setja verði reglugerð um starfsemina í heild sinni, þar sem um sérhæft flug er að ræða.
Þann 31. ágúst síðastliðinn ritaði samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra Flugmálastjórn bréf um að hefja undirbúning að skráningu flugvéla í samræmi við umsókn fyrirtækisins. Ráðuneytið taldi ljóst miðað við fyrri upplýsingar frá Flugmálastjórn að allnokkur undirbúningur þyrfti að eiga sér stað áður en hægt yrði að setja reglur hér að lútandi sem væru í samræmi við íslensk lög á þessu sviði og alþjóðaskuldbindingar. Í bréfinu kemur skýrt fram að með því er ekki veitt heimild til skráningar heldur einungis að kanna fjölmörg atriði sem liggja þurfa fyrir áður en afstaða er tekin til umsóknar E.C.A.
Meðal þeirra atriða sem ráðuneytið taldi þörf á að varpa ljósi á var það hvort ríki, sem Ísland á í samstarfi við á þessu sviði, væru tilbúin til að aðstoða við verkefnið, t.d. varðandi skráninguna. Þá vildi ráðuneytið að Flugmálastjórn athugaði reglur sem um slíka starfsemi kunni að gilda í nágrannaríkjum og hvort reynsla og þekking væri til staðar á Íslandi á þeim flugvélum sem E.C.A hefur í hyggju að nýta fyrir starfsemi sína.
Álit Flugmálastjórnar Íslands
Í svari Flugmálastjórnar til ráðuneytisins dags. 24. september síðastliðinn, sem fylgir hér með, er sérstök athygli vakin á því að ekki liggur fyrir formleg umsókn frá fyrirtækinu. Stofnunin bendir reyndar á að ekki sé unnt að leggja inn umsókn um skráningu og útgáfu lofthæfisskírteina fyrir Sukhoi SU-30 herþotur enn sem komið er þar sem núgildandi reglur ná ekki yfir slík loftför. Æskilegt sé að slík umsókn komi frá íslenskum lögaðila til að tryggja lögsögu Íslands og eftirlit með starfrækslu loftaranna.
Flugmálastjórn greinir jafnframt frá því að stofnunin hafi enn sem komið er ekki hafið frekari gagnaöflun eða greiningu á verkefninu enda þyrfti að ráða til þess sérstakan starfsmann eða kaupa að vinnu vegna þessa.
Flugmálastjórn taldi þó unnt að gera nánari grein fyrir nokkrum atriðum sem ráðuneytið óskaði eftir og rakti þau í svari sínu til ráðuneytisins. Meðal þess sem þar er bent á er að reynsla og þekking á rekstri of eftirliti með slíkum lofförum er ekki til staðar á Íslandi, slíkrar þekkingar yrði að leita erlendis. Ekki er vitað til þess að umrædd loftför séu á borgaralegri skrá í öðrum ríkjum. Þá benti stofnunin á að íslensk yfirvöld myndu bera ábyrgð á loftförum E.C.A við æfingar utan íslenskrar lofthelgi eins og almennt er með önnur borgaralega skráð loftför. Þess vegna telur Flugálastjórn nauðsynlegt að tryggja með samningum að öll starfræksla loftfaranna væri skilgreind með þeim hætti að þau væru á ábyrgð þess ríkis þar sem lofförin eru notuð til æfinganna. Hins vegar getur sú staða komið upp að einstök ríki ákveði ein hliða að breyta stöðu loftfars úr borgaralegu í ríkisloftfar og þar með væri loftfarið alfarið á ábyrgð íslenskra yfirvalda.
Ráðuneytið vekur athygli á þeirri hugmynd Flugmálastjórnar, sem kynnt hefur verið forsvarsmönnum fyrirtækisins, að kannaðir verði möguleikar á skráningu í ríki þar sem reynsla er af rekstri herþotna enda þarf skráning hér á landi ekki endilega að vera forsenda fyrir nýtingu mannvirkja á Keflavíkurflugvelli. Nær jafn mörg störf ættu að skapast við starfsemina hér á landi þótt þoturnar væru skráðar í öðru ríki.
Staða málsins
Ráðuneytið hefur, eins og áður er fram komið, haft þessi mál til skoðunar. Ljóst má vera að allnokkur undirbúningur, sem gæti tekið langan tíma, þyrfti að eiga sér stað ef setja á reglur hér að lútandi sem eru í samræmi við íslensk lög á þessu sviði og alþjóðaskuldbindingar. Einnig má ljóst vera að mikill kostnaður fylgir þeim undirbúningi og fjárveitingar eru ekki fyrirliggjandi. Ráðuneytið tekur undir með Flugmálastjórn að verkefni þetta samræmist illa hefðbundnum verkefnum borgaralegra flugmálayfirvalda.
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra mun á næstu dögum gera ríkisstjórninni grein fyrir álitaefnum þessum og niðurstöðu sinni.
- Erindi Flugmálastjórnar Íslands (skannað skjal)