Hoppa yfir valmynd
5. nóvember 2010 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Aukinn stuðningur við Svaninn

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra kynnir stefnumótun norrænu umhverfisráðherranna á Norðurlandaráðsþingi í Reykjavík.
Frá Norðurlandaráðsþingi 2010 í Reykjavík

Umhverfisráðherrar Norðurlandanna hafa samþykkt nýja metnaðarfulla stefnumótun fyrir norræna umhverfismerkið Svaninn til ársins 2015. Meðal annars ákváðu ráðherrarnir á fundi sínum í Reykjavík 2. nóvember að hækka fjárframlag til Svansins í fjórar milljónir danskra króna á næsta ári eða sem samsvarar rúmum 83 milljónum íslenskra króna. Ísland var leiðandi í gerð stefnumótunarinnar, en hún er eitt þeirra verkefna sem lögð var sérstök áhersla á á formennskuári Íslands í Norrænu ráðherranefndinni.

Umhverfisráðherrar Norðurlandanna hafa borið ábyrgð á Svansmerkinu frá árinu 2006. Merkið er orðið eitt af sterkustu umhverfismerkjunum á heimsvísu og þar af leiðandi góð kynning fyrir Norðurlöndin. Markmið umhverfisráðherranna er að Svanurinn verði áfram traustasta umhverfis- og gæðamerki sem völ er á fyrir neytendur og framleiðendur vöru og þjónustu. Samkvæmt stefnumörkuninni verða loftslags- og sjálfbærniviðmið merkisins efld.

Við þróun viðmiða fyrir Svaninn eru umhverfisáhrif tiltekinnar vöru rannsökuð í gegnum allan feril hennar, frá hráefnisvinnslu þar til hún verður að úrgangi. Strangar kröfur eru gerðar um áhrif á loftslag og umhverfi, til dæmis hvað varðar innihald vöru og notkun hættulegra efna og losun þeirra í andrúmsloftið, vatn og jarðveg. Einnig eru gerðar kröfur um orku- og auðlindanotkun, meðhöndlun úrgangs, notagildi og gæði.

Svanurinn er nú notaður í 65 mismunandi vöruflokkum og meira en 5.000 vörur eru Svansmerktar. Veitt hafa verið yfir 2.000 leyfi til meira en 1.000 fyrirtækja og þeim fjölgar jafnt og þétt.

Hér á landi vinnur Umhverfisstofnun að eflingu Svansmerkisins og íslenskt atvinnulíf og neytendur hafa sýnt því aukinn áhuga upp á síðkastið. Nú eru níu íslensk fyrirtæki með Svansvottun og önnur fjórtán fyrirtæki eru með umsóknir í vinnslu hjá Umhverfisstofnun. Svansmerktum vörum á markaði hefur einnig fjölgað mikið. Stefnumótun norrænu umhverfisráðherranna er ætlað að efla þetta starf enn frekar.

Nánari upplýsingar um Svaninn á heimasíðu Umhverfisstofnunar

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta