Hoppa yfir valmynd
5. nóvember 2010 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Drög að frumvarpi um landslénið .is til umsagnar

Drög að frumvarpi til laga um landslénið .is og önnur höfuðlén sem sérstaka skírskotun hafa til Íslands er nú til umsagnar hjá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu. Þeir sem óska geta sent umsagnir sínar umdrögin á netfangið [email protected] til og með 12. nóvember næstkomandi.

Meginmarkmiðið með frumvarpsdrögunum er að stuðla að gæðum, hagkvæmni og framþróun á sviði lénaumsýslu með því að setja lagaramma um lénaskráningar á Íslandi sem tryggir öryggi, skilvirkni og gagnsæi varðandi umsýslu með lén sem tilheyra landsléninu .is.  Markmið þess eru aukinheldur að tryggja að um skráningu léna gildi skýrar reglur þar sem gætt er að hagsmunum almennings og að jafnræði aðila um aðgang sé tryggt. Auk þess má segja að tilgangur laga um landslénið .is sé að vernda ímynd Íslands, þ.e. að tryggja að .is sé gæðamerki.

Í frumvarpsdrögunum er lagt til að lénaumsýslu á Íslandi verði settur lagarammi í fyrsta sinn. Nefnd um framtíðarskipan lénamála hefur starfað með hléum frá árinu 2007 á vegum samgönguráðuneytisins. Í henni áttu sæti fulltrúar internetþjónustuveitenda, samtaka atvinnulífsins, Neytendasamtakanna, fjármálaráðuneytis, forsætisráðuneytis og Isnic, sem sinnir skráningum á .is lénum. Á síðasta fundi nefndarinnar var ákveðið að óska eftir athugasemdum við meðfylgjandi drög að frumvarpi í opnu samráði eins og hér er gert.

Frumvarpsdrögin leggja til að íslenska ríkið hafi ákvörðunarrétt yfir landsléninu .is og öðrum höfuðlénum sem sérstaka skírskotun hafa til Íslands. Jafnframt er kveðið á um að stjórnvöld fari með yfirstjórn höfuðléna með sérstaka skírskotun til Íslands og að starfsemi skráningarstofu, sem annast muni skráningar léna undir .is verði háð starfsleyfi og eftirliti Póst- og fjarskiptastofnunar.  Frumvarpsdrögin styðjast við fjarskiptaregluverkið og með þeim er umsýsla með íslensk höfuðlén felld undir sambærilegt regluverk og aðilar á fjarskiptamarkaði starfa undir.

Hingað til hafa engin sérlög gilt á þessu sviði hér á landi og af íslenskri löggjöf verður ekki ráðið að umsjón með landsléninu .is lúti öðrum reglum eða eftirliti en almennur atvinnurekstur. Með hliðsjón af mikilvægi starfseminnar í þjóðfélagslegu tilliti er litið svo á að starfsemi á borð við þessa skuli lúta eftirliti opinberra aðila.  Auðveldur og hagkvæmur aðgangur á lénum ætti jafnframt að auka fjölda skráninga og stuðla að framþróun internetsins.

Unnt er að senda umsagnir við frumvarpsdrögin á netfangið [email protected] til 12. nóvember.  

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta