Hoppa yfir valmynd
8. nóvember 2010 Dómsmálaráðuneytið

Athugasemd frá dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu vegna umræðna um fangelsisbyggingu

Vegna umræðna um aðkomu danskra arkítekta að undirbúningi nýrrar fangelsisbyggingar vill dómsmála- og mannréttindaráðuneytið taka eftirfarandi fram:

  • Íslensk yfirvöld hafa unnið að hugmyndum um uppbyggingu í fangelsismálum um árabil. Árið 2008 var unnið að byggingu nýs móttökuhúss að Litla Hrauni í samræmi við þágildandi áætlun um uppbyggingu fangelsa. Þá var ákveðið að fá að verkinu erlenda ráðgjafa til að aðstoða við frumathugun vegna hússins. Fyrir valinu varð danskur ráðgjafi, Sten Ostenfeld arkitekt hjá Alex Poulsen Arkitektkontor. Þótti takast vel til við þessa vinnu, en af framkvæmdum varð ekki vegna efnahagshrunsins.
  • Á vegum vinnuhóps dómsmála- og mannréttindaráðuneytis, fjármálaráðuneytis og Fangelsismálastofnunar hefur verið unnið að frumathugun fyrir nýtt fangelsi. Ákveðið var að í tengslum við frumathugun yrðu gerðir frumuppdrættir til að varpa ljósi á stærð mögulegs fangelsis og lóðar auk innbyrðis tengsla fyrirhugaðrar starfsemi. Er slík vinna í samræmi við verklagsreglur fjármálaráðuneytisins um tilhögun frumathugunar. Var Sten Ostenfeld, sem er einn reyndasti ráðgjafi á Norðurlöndunum á sviði fangelsibygginga, falið að vinna frumuppdrætti og leggja jafnframt mat á forsendur í þeirri húsrýmisáætlun sem lögð var til grundvallar. Þá hefur Ostenfeld gert drög að kröfu- og þarfalýsingu fyrir byggingu og lóð, einkum með tilliti til öryggismála og þeirra sérstöku og sérhæfðu krafna sem fangelsi fylgja. Samið var um þetta verk í júní sl. Ostenfeld er hins vegar ekki arkitekt bygginganna heldur hefur aðeins unnið ofangreind verkefni.
  • Samningsfjárhæð í samningi við Alex Poulsen Arkitektkontor jafngildir um 4,8 milljónum íslenskra króna á núverandi gengi. Gert er ráð fyrir að hönnunarkostnaður nýs fangelsis geti numið allt að 120 milljónum króna og að vinna arkitekta geti numið allt að 50 milljónum af því.
  • Frá upphafi hefur verið við það miðað að útboð á hinu nýja fangelsi næði bæði til hönnunar og framkvæmda. Með þeirri tilhögun að fá afmarkaða sérfræðiráðgjöf við gerð frumáætlunar er stuðlað að því að hönnun hins nýja fangelsis geti almennt verið í höndum íslenskra arkitekta og verkfræðinga í stað þess að treysta á að verksali leggi til vinnu arkitekta með reynslu af sambærilegum byggingum.
  • Af ofangreindu er ljóst að það er rangt að af hálfu ráðuneytsins hafi verið unnið að því að hönnun nýs fangelsis yrði alfarið eða að mestu leyti unnin erlendis.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta