Námskeið um þróunarsamvinnu, friðaruppbyggingu og hjálparstarf
Utanríkisráðuneytið, Þróunarsamvinnustofnun, Rauði krossinn og Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands standa að námskeiði um þróunarsamvinnu og hjálparstarf á vettvangi, sem hefst í dag hjá Endurmenntunarstofnun. Námskeiðið er fyrir alla sem hafa áhuga á alþjóðamálum, mannúðarstarfi og þróunarsamvinnu.
Námskeiðið fjallar um þróunarsamvinnu, neyðaraðstoð, mannúðarstarf og friðaruppbyggingu. Þátttakendur fá innsýn í störf á vettvangi, stefnur og starfsemi ólíkra stofnana, þátttöku Íslands í verkefnum á þessu sviði og fá að spreyta sig á krefjandi verkefnum.
Fræðslan verður sett í samhengi við Þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna um þróun og verður rætt hvernig ólík verkefni stefna að sama marki - bættum heimi. Fyrirlesarar eru frá þeim stofnunum og samtökum sem að námskeiðinu standa og deila reynslusögum af störfum sínum á vettvangi. Kennsla fer fram með fyrirlestrum, hópavinnu og umræðum. Einnig verður leitast við að leiðbeina þátttakendum um hvernig sótt er um laus störf hjá alþjóðastofnunum.
Umsjón með námskeiðinu hefur Birna Þórarinsdóttir, stjórnmála- og öryggismálafræðingur.