Hoppa yfir valmynd
9. nóvember 2010 Matvælaráðuneytið

Átak til atvinnusköpunar á Suðurnesjum

 

Ríkisstjórnin hélt reglulegan fund sinn í morgun í Reykjanesbæ og er það í fyrsta sinn sem ríkisstjórn Íslands fundar á Suðurnesjum. Fyrir fundinn átti ríkisstjórnin fund með bæjar- og sveitarstjórum allra sveitarfélagana á Suðurnesjum þar sem farið var yfir stöðu mála á svæðinu, ekki síst atvinnumálin og lausnir á því mikla atvinnuleysi sem þar ríkir.

Iðnaðarráðherra, Katrín Júlíusdóttir, lagði fram minnisblað um tvær aðgerðir sem iðnaðarráðuneytið er að ráðast í sem hluta af fyrstu skrefum í samræmdum aðgerðum stjórnvalda til að efla atvinnu á Suðurnesjum. Þessar aðgerðir eru hluti af fjölda verkefna iðnaðarráðuneytisins og stofnana þess sem tengjast beint eða óbeint örvun atvinnulífs á Suðurnesjum. Iðnaðarráðherra fór yfir lista yfir fjölmörg önnur verkefni en þau fara til frekari vinnslu hjá nýskipuðum starfshópi um atvinnumál á Suðurnesjum og stofnunum ráðuneytisins.

Starfshópur um atvinnumál á Suðurnesjum.

Iðnaðarráðherra hefur skipað hóp þriggja sérfræðinga, sem fengið hefur það verkefni að greina stöðu atvinnulífsins á Suðurnesjum, meta sérstöðu þess og sóknarmöguleika, fara yfir hugmyndir um atvinnuuppbyggingu, meta nýjar hugmyndir og gera tillögur um aðgerðir. Unnið verður í nánu samstarfi við heimamenn og hagsmunaaðila á borð við talsmenn verkalýðsfélaga og atvinnurekenda, þingmenn kjördæmisins, atvinnumálanefndir sveitarfélaga og Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum. Stofnanir iðnaðarráðuneytisins Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Ferðamálastofa og Byggðastofnun svo og fjárfestingasvið Íslandsstofu munu vinna með starfshópnum. Þá verður verklag og áherslur samræmt við starfsemi vaxtarsamnings iðnaðarráðuneytis og Sambands Sveitarfélaga á Suðurnesjum.

Starfshópinn skipa Ásta Dís Óladóttir framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar, Guðmundur Pétursson frá Samtökum Atvinnurekenda á Suðurnesjum og Eiríkur Hilmarsson, framkvæmdastjóri. Starfshópurinn mun skila iðnaðarráðherra framvinduskýrslu fyrir 15. desember 2010 og lokaskýrslu með tillögum um aðgerðir í atvinnumálum á Suðurnesjum fyrir 1. mars 2011. Starfshópurinn hefur tekið til starfa og fundað með forstöðumönnum stofnana ráðuneytisins þar sem farið var yfir verkefni á þeirra vegum sem tengjast Suðurnesjum.

Klasasamstarf fyrirtækja á sviði líforku.

Unnið verði með fyrirtækjum á Suðurnesjum að mótun og rekstri klasa á sviði líforku.  Metið verður hverskonar ný fyrirtæki á sviði líforku æskilegast sé að laða inn á svæðið til að styrkja fyrirtækin sem þar eru nú og þá framtíðarsýn sem þar verður sköpuð um uppbyggingu og framtíðar samstarf.  Margir erlendir fjárfestar á sviði líforku hafa sýnt svæðinu áhuga og verða verkefni þeirra skoðuð fyrst.  Markmið verkefnisins er að styrkja samkeppnishæfni fyrirtækja á Suðurnesjum sem starfa á sviði líforku og nýrra fyrirtækja sem þangað vilja koma til að nýta sér sérstöðu svæðisins og kosti klasasamstarfs.  Beitt verður aðferðafræði klasa til að vinna að verkefnum á sviði nýsköpunar, vöruþróunar, markaðssóknar og útflutnings.  Stefnt er að því að verkefni klasans muni leiða til aukinnar arðsemi fyrirtækja í gegnum nýsköpun og þekkingaryfirfærslu. Þess er einnig vænst að samstarfið stuðli að aukinni hagnýtingu sérfræðiþekkingar og nýrra tækifæra í samstarfi fyrirtækja.     Áherslur verkefnisins verða á eftirfarandi þætti:

  •        Framkvæmd sameiginlegra þróunarverkefna
  •        Þróun á nýrri vöru eða þjónustu
  •        Markaðsaðgerðir
  •        Stuðning við útflutning og sókn á nýja markaði
  •        Þróun á viðskiptamódeli klasa
  •       Greiningarvinnu og fýsileikakannanir
  •       Tækni- og þekkingaryfirfærslu

Fjárfestingasvið Íslandsstofu og aðrir vinna þegar að áhugaverðum verkefnum á sviði líforku á Suðurnesjum og er undirbúningur þeirra komin mislangt. Staðsetning fyrirtækja nærri jarðgufuvirkjunum á Suðurnesjum hentar mjög vel enda munu þau nýta ýmsar aðrar afurðir virkjana en raforku.

Önnur mál

Á ríkisstjórnarfundinum voru samþykkt ýmis önnur sem haft geta góð áhrif á stöðu mála á Suðurnesjum og jafnframt var samþykkt sú tillaga fulltrúa sveitarfélaganna að setja á stofn samráðsvettvang ríkisstjórnarinnar og sveitarfélaga á Suðurnesjum til að vinna að framgangi málanna og fjölmargra annarra sem hafa verið til skoðunar að undanförnu. Ríkisstjórnin hefur leitað eftir hugmyndum að aðgerðum frá öllum ráðuneytum ásamt því sem farið hefur verið yfir þær hugmyndir sem komu út úr vinnu að Sóknaráætlun 20/20 fyrir Suðurnes.

Á vef forsætisráðuneytis er listi yfir þau verkefni sem samþykkt voru á ríkisstjórnarfundinum í Reykjanesbæ: http://www.forsaetisraduneyti.is/frettir/nr/4465

 Bláa Lónið

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta