Hoppa yfir valmynd
12. nóvember 2010 Matvælaráðuneytið

Nr. 67/2010 - 29. ársfundur Norðaustur Atlantshafs fiskveiðinefndarinnar (NEAFC)

 

Dagana 8.-12. nóvember 2010 fór fram 29. ársfundur Norðaustur Atlantshafs fiskveiðinefndarinnar (NEAFC) í höfuðstöðvum nefndarinnar í London.

Á fundinum var staðfestur samningur strandríkja um stjórnun veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum og kolmunnastofninum sem gerður var í október síðastliðnum. Rússar greiddu atkvæði gegn samþykkt samkomulags um kolmunna og eru því óbundnir af því. Einnig var gengið frá samningi um veiðar á karfa í Síldarsmugunni. Þar var aflamark lækkað milli ára úr 8.600 tonnum í 7.900 tonn. Ísland sat hjá við þá samþykkt en Alþjóða hafrannsóknaráðið (ICES) hefur lagt til að engar beinar veiðar fari fram.

Á fundinum var rætt um stjórn veiða á úthafskarfa á Reykjaneshrygg. Strandríkin, Ísland, Færeyjar og Grænland, lögðu sameiginlega fram drög að stjórnunarákvæðum sem voru rædd á fundinum en ekki náðist samkomulag á grunni þeirra. Á fundinum var hins vegar ákveðið að strandríkin bjóði til fundar með öllum aðildarríkjum NEAFC í janúar 2011. Á þeim fundi er stefnt að því að ná samkomulagi um stjórn veiðanna.

Framkvæmdasjóri fiskveiðinefndarinnar til síðustu 10 ára, Kjartan Hoydal frá Færeyjum mun láta af stöfum í júni á næsta ári. Á fundinum var ákveðið að við stöðu hans taki Stefán Ásmundsson, skrifstofustjóri í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu.  

Í íslensku sendinefndinni voru Steinar I. Matthíasson sem jafnframt var formaður og Kristján Freyr Helgason frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, Heiðrún Pálsdóttir frá utanríkisráðuneytinu, Þorsteinn Sigurðsson frá Hafrannsóknastofnuninni, Helga Sigurrós Valgeirsdóttir frá Fiskistofu, Gylfi Geirsson frá Landhelgisgæslunni og Friðrik J. Arngrímsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta