Hoppa yfir valmynd
15. nóvember 2010 Dómsmálaráðuneytið

Frjór fundur um meðferð nauðgunarmála

Frá samráðsfundi um meðferð nauðgunarmála
Samráðsfundur um meðferð nauðgunarmála

Um fjörtíu manns mættu til umræðufundar um meðferð nauðgunarmála í réttarvörslukerfinu sem dómsmála- og mannréttindaráðherra boðaði til föstudaginn 12. nóvember. Til fundarins var boðið fulltrúum ríkissaksóknara, lögreglu, dómstólaráðs, Alþingis, Neyðarmóttöku vegna nauðgana, Lögmannafélagi Íslands, Stígamóta, Femínistafélags Íslands, Rannsóknarstofu í kvenna- og kynjafræðum, Mannréttindaskrifstofu Íslands og fleirum. 

Halla Gunnarsdóttir, aðstoðarmaður ráðherra, flutti erindi á fundinum og vakti máls á því að á síðustu árum hafa á árlega á milli 200 og 250 manns, mest konur, leitað sér aðstoðar hjá Neyðarmóttöku eða Stígamótum vegna nauðgunar eða nauðgunartilrauna. Á sama tíma hefur verið sakfellt í 5-16 málum á ári. Tilgangur fundarins var að ræða ástæður þess að aðeins hluti mála ratar inn til réttarvörslukerfisins og afar fá enda með sakfellingu.

Fundargestum var skipt upp í smærri hópa, sem kynntu síðan niðurstöður sínar og tillögur til úrbóta í lok fundar. Frjóar umræður sköpuðust í öllum hópum og ljóst var að allir sem að þessum málum koma, jafnt á grasrótarstigi sem innan réttarvörslukerfisins, vanda til verka og ríkur vilji er til að stuðla að úrbótum þar sem það er mögulegt.

Meðal tillagna sem fram komu var að símenntun þyrfti að vera í boði fyrir dómara og rannsóknarlögreglumenn, að gera þyrfti nýja úttekt á afdrifum nauðgunarmála og að ákæruvaldi og dómstólum gæti þurft að standa sálrænn stuðningur til boða þegar fengist er við erfið mál. Unnið verður úr tillögum hópanna og byggt á þeim í áframhaldandi vinnu innan dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta