Ráðherra boðar lög um smálánafyrirtæki
Efnahags- og viðskiptaráðherra hefur látið semja frumvarp til laga um starfsemi smálánafyrirtækja. Frumvarpið er á heimasíðu efnahags- og viðskiptaráðuneytisins og geta þeir sem áhuga hafa sent ráðuneytinu athugasemdir eða ábendingar fyrir lok vinnudags þann 26. nóvember n.k. á tölvupóstfangið [email protected] eða Efnahags- og viðskiptaráðuneytið, Sölvhólsgötu 7, 150 Reykjavík.
Með frumvarpinu er leitast við að setja lagaumgjörð um starfsemi smálánafyrirtækja sem er sambærileg þeirri sem gildir um fjármálafyrirtæki og eru helstu ákvæði eftirfarandi:
- Starfsemi smálánafyrirtækja verður starfsleyfisskyld. Starfandi fyrirtæki fá þriggja mánaða frest til þess að afla sér starfsleyfis.
- Smálánafyrirtæki verða gjaldskyld sem önnur starfsleyfisskyld fjármálafyrirtæki og ber þannig t.d. að greiða til rekstrar Fjármálaeftirlitsins og Umboðsmanns skuldara.
- Smálánafyrirtækjum verður óheimilt að stunda hvers konar hliðarstarfsemi. Þau skulu vera með starfsábyrgðartryggingu.
- Fjármálaeftirlitið mun hafa eftirlit með rekstri smálánafyrirtækja.
- Óheimilt verður að víkja frá ákvæðum laganna ef slíkt leiðir til lakari stöðu lánþega.
- Skylt verður að gera mat á greiðslugetu fyrir hvern lánþega og ákvæði sett um gjaldtöku fyrir matið.
- Óheimilt verður að lána til ólögráða einstaklinga, fólks með meðalatvinnutekjur síðastliðna 12 mánuði undir lægstu atvinnuleysisbótum, þeirra sem gengið hafa frá samningi um sértæka skuldaaðlögun á síðustu tólf mánuðum eða þeirra sem hafa hafið greiðsluaðlögunarumleitan eða lokið samningi um greiðsluaðlögun.
- Aðeins verður heimilt að taka við og afgreiða lánsumsóknir á virkum dögum frá kl. 9 að morgni til kl. 17 síðdegis.
- Óheimilt er að greiða út lán fyrr en 48 klukkustundir eru liðnar frá samþykkt umsóknar. Innan þess tíma getur lánþegi gengið frá samningi án greiðslu nokkurs kostnaðar.
- Lánþegi hefur rétt til þess að falla frá samningi í samræmi við ákvæði laga um fjarsölu á fjármálaþjónustu.
- Vaxtakjör í smálánasamningum verða lögákveðin.
- Settar eru ófrávíkjanlegar reglur um hámarksgjaldtöku smálánafyrirtækja.