Sendinefnd AGS lýkur heimsókn vegna fjórðu endurskoðunar efnahagsáætlunar
Sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) lauk í gær tæplega tveggja vikna heimsókn sinni til Íslands. Heimsóknin var liður í fjórðu endurskoðun sjóðsins á framkvæmd efnahagsáætlunar stjórnvalda og AGS. Fulltrúar ráðuneyta, ríkisstofnana, þings, aðila vinnumarkaðarins, háskóla og einkaaðila hafa fundað með sendinefndinni. Formaður hennar er Julie Kozack.
Sendinefnd AGS mun að lokinni heimsókninni skila skýrslu (e. staff report) til framkvæmdastjórnar sjóðsins. Skýrslan verður lögð til grundvallar ákvörðun um samþykkt fjórðu endurskoðunarinnar, ásamt nýrri viljayfirlýsingu stjórnvalda (e. letter of intent), þar sem helstu markmiðum í næsta áfanga efnahagsáætlunarinnar er lýst.
„Mat sjóðsins er að við séum á réttri braut,“ segir Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra. „Endurskipulagning skulda heimila og fyrirtækja er forgangsverkefni ráðuneytisins um þessar mundir og við fögnum því að AGS taki undir með okkur um mikilvægi þess verkefnis. Grundvallaratriði er þó að skuldir umfram greiðslugetu verði afskrifaðar, en að kostnaði af skuldsetningu verði ekki velt á ríkissjóð.“
Tilkynning um heimsóknina á vef AGS: http://www.imf.org/external/np/sec/pr/2010/pr10431.htm