Hoppa yfir valmynd
15. nóvember 2010 Utanríkisráðuneytið

UPPTAKTUR : 2010 kynning á list og hönnun frá Íslandi í Kína

IMG_1483
IMG_1483

Fimm sýningar íslenskra listamanna og hönnuða verða opnaðar í Peking á Degi íslenskrar tungu, þriðjudaginn 16. nóvember. Fjórar sýninganna verða haldnar í 751, stærsta lista- og hönnunarhverfi borgarinnar, og sú fimmta í sendiráði Íslands.

Á þriðja tug fyrirtækja og stofnana frá Kína og Íslandi koma að sýningunni ýmist sem styrktaraðilar eða fagaðilar sem gefa vinnu sína. Sýningarnar eru haldnar í samstarfi við skipulagsaðila Hönnunarvikunnar í Peking  og skipuleggjendur NOTCH10, kínversk-norrænu menningarhátíðarinnar í Peking.

  1. Íslensk samtímahönnun er samsýning hugmynda og verka um 30 hönnuða og arkitekta frá Íslandi. Sýningin er á vegum Hönnunarmiðstöðvar. Sýningarstjóri er Elísabet V. Ingvarsdóttir.
  2. STEiNUNN er yfirlitssýning verka Steinunnar Sigurðardóttur hins margverðlaunaða fatahönnuðar,  sem  stillir upp sköpunarverkum sínum og tvinnar saman efni og náttúru. 
  3. Ljóðrými – veðurskrift:  Guðrún Kristjánsdóttir, myndlistarmaður, setur upp sýningu sem í orðsins fyllstu merkingu varpar ljósi á umhverfið og umvefur gesti birtu, skuggum, ljóðum og tónum.
  4. Lón vættanna er sýning á jöklamyndum Ragnars Axelssonar, betur þekktur sem RAX en þar sést hvernig frosin lög jökulsins hafa hlaðið upp svipmyndum liðinna alda.
  5. Kynning á samtímalist í sendiráðinu:  Erla Haraldsdóttir, Erla Þórarinsdóttir, Guðjón Ketilsson, Guðrún Einarsdóttir, Guðrún Kristjánsdóttir, Hulda Hákon, Inga Svala Þórsdóttir, Jón Óskar, Erró og Sigurður Guðmundsson hafa lánað sendiráðinu verk sín.

Sýningarnar eru liður í að  fylgja eftir þátttöku Íslands í Heimssýningunni í Sjanghæ og nýta tækifæri til þess að kynna íslenskar listir og hönnun í Kína.  Íslensk samtímahönnun og kynning á samtímalist í sendiráðinu eru liður í átaksverkefnum utanríkisþjónustunnar á sviði lista og skapandi greina. 

Markmið sendiráðsins og samstarfsaðilanna er að koma á samböndum og tengslum  sem nýst geta íslenskum hönnuðum, arkitektum og myndlistarmönnum, og að styrkja ímynd Íslands sem nútímalegs samfélags með víðtækri umfjöllun kínverskra fjölmiðla um hönnun, arkitektúr, myndlist og ljósmyndun.

Helstu samstarfs- og stuðningsaðilar utanríkisráðuneytisins og sendiráðsins í Peking eru mennta- og menningarmálaráðuneytið, Íslandsstofa, Hönnunarmiðstöð Íslands og  Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar auk kínverska fyrirtækja.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta