Hoppa yfir valmynd
16. nóvember 2010 Innviðaráðuneytið

Aðgerðir til að styrkja Landeyjahöfn í undirbúningi

Ákveðið hefur verið að ganga til samninga við Íslenska gámafélagið um dýpkunarverkefni í Landeyjahöfn. Fulltrúar Siglingastofnunar kynntu í gær fyrir samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra ýmsar tillögur um aðgerðir í og við Landeyjahöfn til að auka öryggi við nýtingu hafnarinnar.

Herjólfur prófaður í Landeyjahöfn
Herjólfur prófaður í Landeyjahöfn

Hermann Guðjónsson siglingamálastjóri og Ögmundur Jónasson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, ræddu þessar aðgerðir á fundi í gær ásamt sérfræðingum sínum. Tillögurnar um aðgerðir í Landeyjahöfn felast í stuttu máli í þremur liðum:

1. Í framhaldi af útboði á viðhaldsdýpkun verði stefnt að samningi við Íslenska gámafélagið en fyrirtækið átti hagstæðasta tilboðið með tilliti til verðs og dýpkunartækja.

2. Í samvinnu við Eyjamenn verði keyptur plógur sem Lóðsinn í Vestmannaeyjum noti til að draga efni úr innsiglingu Landeyjahafnar. Slíkan búnað væri unnt að nota í yfir tveggja metra ölduhæð og gæti hann opnað höfnina og haldið opinni eftir minni veður.

3. Gerður verði flóðvarnargarður til að færa ósa Markarfljóts austur um 2 km. Þeirri aðgerð er ætlað að draga úr því að sandburður úr fljótinu berist inn í höfnina.

Áætlaður heildarkostnaður við þessa aðgerðir er um 180 milljónir króna í vetur, en það er sama upphæð og gert er ráð fyrir í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2010.

Vegna hugmyndar um gerð varnargarðs við ósa Markarfljóts skal tekið fram að ráðherra hefur fyrir sitt leyti samþykkt tillögur Siglingastofnunar að því gefnu að tilskilin leyfi fáist og samningar takist sem gera þarf hugsanlega vegna verksins.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta