Hoppa yfir valmynd
16. nóvember 2010 Dómsmálaráðuneytið

Kynningarblaði um frambjóðendur og sýnishorni af kjörseðli dreift

Kynningarblað um frambjóðendur og kosningar til stjórnlagaþings.
Kynningarblað um frambjóðendur og kosningar til stjórnlagaþings.

Dreifing er nú hafin á kynningarblaði sem dómsmála- og mannréttindaráðuneytið hefur gefið út um frambjóðendur og kosningar til stjórnlagaþings 27. nóvember næstkomandi. Sýnishorn af kjörseðli, merkt hverjum kjósanda, hefur einnig verið sent öllum kjósendum í landinu. Reiknað er með að kynningarefnið verði komið inn á hvert heimili á morgun, miðvikudag, ef veður og færð á vegum hamlar ekki dreifingu.

Frambjóðendur eru sjálfir höfundar þess efnis sem um þá birtist í kynningarblaðinu en sami texti er einnig birtur á kosningavef dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins, kosning.is.

Þar er líka leitarvél þar sem finna má frambjóðendur m.a. eftir nafni, starfsheiti, sveitarfélagi og kyni. Að auki býðst kjósendum að setja þá frambjóðendur sem þeir hafa hug á að kjósa á rafrænan hjálparkjörseðil, prenta hann út og taka með á kjördag til að flýta fyrir sér.

Frambjóðendur til stjórnlagaþingskosninga eru alls 522 en 521 frambjóðandi er kynntur í blaðinu sem dreift er nú um allt land, og á kosningavefnum kosning.is. Ástæðan er sú að einn frambjóðandi vildi draga framboð sitt til baka en þá var frestur til slíks liðinn. Hann er því formlega í framboði en án kynningar.

Í kynningarblaðinu er einnig fjallað um ýmsa þætti er lúta að framkvæmd kosninganna, birtar eru upplýsingar um kosningakerfið, fjallað um kjörseðilinn, talningu atkvæða og fleira.

Heimavinna kjósenda
Öllum frambjóðendum var úthlutað fjögurra stafa auðkennistölum sem kjósendur skrá á kjörseðla sína á kjördag í stað nafna. Því er mikilvægt að kjósendur „vinni heima“ og fylli út hjálparkjörseðla, annaðhvort heimsenda kynningarseðilinn, sem sendur hefur verið öllum kjósendum á landinu, eða rafræna seðilinn á vefnum kosning.is og taki með sér á kjörstað. Raða skal frambjóðendum í forgangsröð allt frá 1 og upp í 25.

Kosningakerfið er nýmæli hér á landi
Kosningakerfið sem stuðst er við í stjórnlagaþingskosningunum er nýmæli hér á landi en það hefur verið notað víða um heim. Í lögum um stjórnlagaþing er höfð hliðsjón af kosningakerfinu í Skotlandi. Kjósandinn fer með eitt atkvæði og kosningakerfið sér til þess að vægi atkvæðisins nýtist eins vel og mögulegt er.

Atkvæðatalning með tölvuskanna
Talning atkvæða fer fram með tölvuskanna og verður sett upp umfangsmikið tölvukerfi af þessu tilefni. Notaður verður breskur hugbúnaður aðlagaður að íslenskri kosningalöggjöf og kröfum um greiningu og útreikninga vegna kosninga til stjórnlagaþings. Öllum atkvæðum á landinu verður safnað saman og þau talin í Laugardalshöll. Reiknað er með að talning atkvæða geti tekið allt að tvo sólarhringa. Úrslit ættu samkvæmt því að liggja fyrir mánudaginn 29. nóvember.

Kosning.is
Á vefnum kosning.is er að finna almennar upplýsingar um framkvæmd kosninga til stjórnlagaþings, kjósendur geta séð hvar þeir eru á kjörskrá, birtar eru fréttir á táknmáli og fleira. Þar er líka hægt að nálgast heimsenda kynningarritið á pdf-formi.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta