Hoppa yfir valmynd
16. nóvember 2010 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra hvetur til samstarfs á jarðhitaráðstefnu í Tókíó

ossur1
ossur1

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra, hvatti til aukins samstarfs íslenskra og japanskra fyrirtækja um nýtingu jarðhita á Íslandi, í Japan og í öðrum ríkjum í opnunarræðu sérstakrar jarðhitaráðstefnu sem haldin var í Tókíó í dag.

Um 300 manns sóttu ráðstefnuna þar á meðal fulltrúar japanskra stjórnvalda, helstu tæknifyrirtækja Japans sem meðal annars smíða túrbínur og önnur tæki í jarðhitavirkjanir, og æðstu stjórnendur íslenskra orku- og verkfræðifyrirtækja.

Í ræðu á ráðstefnunni lýsti fulltrúi japanskra stjórnvalda hvernig unnt væri að auka nýtingu jarðhita í Japan og lýsti áhuga stjórnvalda og fjárfestingasjóða á að hvetja til og styðja við verkefni íslenskra og japanskra fyrirtækja í jarðhitaverkefnum víða um heim.

Japan og Ísland eru á meðal fremstu landa heims þegar kemur að nýtingu jarðvarma og hafa átt samstarf um það í um 30 ár. Utanríkisráðherra fór ítarlega yfir tækifæri sem þjóðirnar ættu til samstarfs og sagði að með hátækniþekkingu Japana og sérþekkingu Íslendinga á nýtingu jarðvarma á umhverfisvænan hátt, mætti þróa þekkinguna enn frekar, öðrum þjóðum til hagsbóta. Undir það tóku aðrir frummælendur.

Fram kom í máli ráðherra að nýta mætti jarðhita í yfir 100 löndum og þar hefðu Japanir og Íslendingar margt fram að færa. Sagði hann skemmst að minnast nýlegra samninga sem gerðir hefðu verið við Kínverja og Rússa, auk þess sem íslensk fyrirtæki störfuðu víða í Asíu, Afríku og Mið-Evrópu, og nýttu sér að jafnaði japanska hátækni.

Sendiráð Íslands í Japan, Íslensk-japanska verslunarráðið, Efnahags- viðskipta- og iðnaðarráðuneyti Japans, og Háskóli Sameinuðu þjóðanna með þátttöku fjölmargra fyrirtækja og sjóða úr japanska orkugeiranum standa að ráðstefnunni.

Í ferð sinni til Japan á Össur Skarphéðinsson fundi með japönskum stjórnvöldum og forystumönnum fyrirtækja og fjárfestingasjóða, m.a. um framkvæmdir og fjármögnun jarðhitaverkefna.

Ræða ráðherra (á ensku) er hér í viðhengi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta