Nr. 68/2010 - Samráðsvettvangur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um nýtingu helstu nytjafiska
Samráðsvettvangur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra
um nýtingu helstu nytjafiska
- verkefnislýsing-
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur sett á fót samráðsvettvang um nýtingu helstu nytjafiska.
Við þær aðstæður sem nú eru í efnhags- og atvinnulífi þjóðarinnnar er eðlilegt að menn horfi til þess hvort hægt sé að auka afrakstur fiskveiðiauðlindarinnar. Einnig hafa verið skiptar skoðanir um nýtingarstefnuna í þorski og þá aflareglu sem nú er miðað við.
Markmið vinnu vettvangsins er að fá fram og ræða hlutlaust mat á núverandi nýtingarstefnu og aflareglu og komast að því hvort rétt sé að leggja til breytingar á þessum þáttum og mögulega bæta enn frekar grunn þeirra. Taka skal mið af líffræðilegum, hagfræðilegum og félagslegum þáttum.
Fyrsti áfangi verksins mun beinast að þorskveiðum, og frekari vinna hópsins verður ákveðin að því loknu. Miðað er við að fyrsta áfanga verði lokið í desember 2010 með stuttri skýrslu.
Á fyrstu fundum vettvangsins verður aflað upplýsinga og dregin upp skýr mynd af núverandi þekkingu og stefnu, sem og tillögum, sjónarmiðum og skoðunum allra aðila. Síðan mun stýrihópur taka sér tíma til að fara vandlega yfir málið. Að því loknu mun vettvangurinn í heild vega og meta hugmyndir og tillögur. Í framhaldi af því verða niðurstöður til ráðherra mótaðar. Í ferlinu verður leitað ráða hjá bæði innlendum og erlendum sérfræðingum. Stýrihópur ber ábyrgð gagnvart ráðherra á framsetningu niðurstaðna.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur skipað þrjá aðila í stýrihóp verkefnisins. Skúli Skúlason rektor Hólaskóla fer fyrir hópnum, en auk hans eru skipaðir Sveinn Kári Valdimarsson forstöðumaður Náttúrstofu Reykjaness og Daði Már Kristófersson dósent hjá Háskóla Íslands. Fulltrúar Hafrannsóknastofnunarinnar í samráðsvettvanginum eru Jóhann Sigurjónsson forstjóri og Einar Hjörleifsson veiðiráðgjafasviði. Fulltúi Landsamband íslenskra útvegsmanna er Kristján Þórarinsson stofnvistfræðingur. Fulltrúi Landsambands smábátaeigenda er Örn Pálsson framkvæmdastjóri. Heimilt er að kalla til aðra aðila og sérfræðinga á fundi vettvangsins.