Hoppa yfir valmynd
18. nóvember 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Anna Lilja Gunnarsdóttir verður ráðuneytisstjóri í nýju velferðarráðuneyti

Anna Lilja Gunnarsdóttir
Anna Lilja Gunnarsdóttir

Guðbjartur Hannesson, félags- og tryggingamálaráðherra og heilbrigðisráðherra, hefur ákveðið að skipa Önnu Lilju Gunnarsdóttur í embætti ráðuneytisstjóra nýs velferðarráðuneytis sem verður til við sameiningu félags- og tryggingamálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis 1. janúar 2011.

Embætti ráðuneytisstjóra velferðarráðuneytisins var auglýst 28. september og rann umsóknarfrestur út 13. október. Guðbjartur Hannesson, heilbrigðisráðherra og félags- og tryggingamálaráðherra, ákvað að fela þriggja manna hæfnisnefnd að fara yfir umsóknir um embættið og var nefndinni falið að skila ráðherra skriflegu mati á hæfni umsækjenda.

Hæfnisnefndin mat fjóra úr hópi umsækjenda mjög vel hæfa, þau Önnu Lilju Gunnarsdóttur, Bolla Þór Bollason,  Rögnu Árnadóttur og Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur. Ragna Árnadóttir dró umsókn sína til baka en ráðherra kallaði hina umsækjendurna þrjá til viðtals og tók að því loknu ákvörðun um að skipa Önnu Lilju í embættið.

Anna Lilja Gunnarsdóttir hefur verið framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landspítala frá árinu 2000. Áður hafði hún meðal annars verið forstöðumaður áætlana- og hagdeildar Ríkisspítala, gegnt störfum hjúkrunarframkvæmdastjóra þar og einnig starfað í faghópi heilbrigðisráðuneytis um framtíðarskipan sjúkrahúsmála. Um tíma starfaði hún sem ráðgjafi í heilbrigðismálum hjá ráðgjafarfyrirtækinu Arthur Andersen & Co. í Los Angeles og einnig kenndi hún skamma hríð við Maric College of Medical Careers í Los Angeles.

Anna Lilja lauk B.Sc. prófi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands árið 1985, meistaraprófi í viðskiptafræði frá University of San Diego árið 1990, meistaraprófi í stjórnun heilbrigðisstofnana frá University of Southern California árið 1994 og doktorsprófi í stjórnun á heilbrigðissviði frá University of Southern California árið 2000. 

Anna Lilja Gunnarsdóttir tekur strax til starfa við undirbúning að stofnun velferðarráðuneytisins í samræmi við ákvæði til bráðabirgða með lögum um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands nr. 121/2010.

Guðbjartur Hannesson, félags- og tryggingamálaráðherra og heilbrigðisráðherra
18. nóvember 2010

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta