Hoppa yfir valmynd
18. nóvember 2010 Innviðaráðuneytið

Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri nýs innanríkisráðuneytis

Ragnhildur Hjaltadóttir verður ráðuneytisstjóri nýs innanríkisráðuneytis sem tekur formlega til starfa um næstu áramót við sameiningu dómsmála- og mannréttindaráðuneytis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis. Embættið var auglýst 29. september og bárust 13 umsóknir en einn umsækjandi dró umsókn sína til baka.

Skipað verður í embættið til fimm ára og mun ráðuneytisstjóri taka við embætti 1. janúar 2011 og stýra innanríkisráðuneyti undir stjórn Ögmundar Jónassonar sem verður frá sama tíma innanríkisráðherra. Fram til þess dags eða þar til nýtt ráðuneyti hefur starfsemi mun Ragnhildur vinna að sameiningu ráðuneytanna ásamt sérstakri verkefnisstjórn.

Ragnhildur Hjaltadóttir verður ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytis.Ragnhildur Hjaltadóttir er lögfræðingur að mennt. Hún lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1979 og framhaldsnámi í alþjóðarétti árið 1981 frá Institut Internationale de Hautes Études í Genf í Sviss, með sérstakri áherslu á mannréttindi.

Þá hefur Ragnhildur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum, meðal annars setið í stjórn Orators, Lífs og lands og Kvenréttindafélags Íslands og hún var formaður Hollvinasamtaka Háskóla Íslands árin 1996 til 2004.

Ragnhildur starfaði í dóms- og kirkjumálaráðuneyti árið 1982 en hóf störf í samgönguráðuneyti árið 1983. Síðustu sjö ár hefur hún verið ráðuneytisstjóri samgönguráðuneytisins, sem varð samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti 1. október 2009.

Ragnhildur hefur víðtæka reynslu á verkefnasviði hins nýja innanríkisráðuneytis. Einnig hefur hún síðustu ár stjórnað endurskipulagningu ráðuneytisins og stofnana þess í stjórnkerfinu.

 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta