Hoppa yfir valmynd
18. nóvember 2010 Utanríkisráðuneytið

Rýnifundi um upplýsingatækni og fjölmiðlun lokið

Rýnifundi um 10. kafla löggjafar Evrópusambandsins, Upplýsingatækni og fjölmiðlar, lauk í Brussel í gær. Á fundinum, sem stóð í einn dag, báru sérfræðingar Íslands og ESB saman löggjöf í þessum samningskafla en í honum er að finna reglur um fjarskipti og upplýsingatækni, gagnaþjónustu og  fjölmiðla, þar með talið vernd barna gegn óæskilegu efni í sjónvarpi. Á fundinum var rætt um framkvæmd reglnanna hérlendis en 10. kafli er hluti af EES-samningnum og hefur Ísland þegar tekið upp löggjöf á þessu sviði.
Reglur um upplýsingatækni og fjölmiðla yrðu hinar sömu og nú, komi til aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Skoða þarf hvort breyta þurfi íslenskum reglum vegna ákvörðunar ESB um ráðstöfun tíðni á bilinu 2500-2690 en sú tíðni er notuð fyrir stafrænt sjónvarp hér á landi. Þá var framkvæmdastjórnim upplýst á rýnifundinum um að EFTA-ríkin hafi farið fram á aðlögun er varðar bann við áfengisauglýsingum yfir landamæri. Greinargerð samningahópsins sem fjallar um upplýsingatækni og fjölmiðla (EES II) hefur verið birt á heimasíðunni esb.utn.is  en í henni er að finna nánari útlistun á viðfangsefni kafla.

* * *

Löggjöf Evrópusambandsins skiptist í alls 33 kafla, auk kafla um stofnanir og önnur mál. Áður en eiginlegar samningaviðræður hefjast um einstaka kafla fer fram rýnivinna þar sem löggjöf Íslands og ESB er borin saman til að greina hvar íslensk löggjöf er frábrugðin og hvað semja þarf um. Tveir rýnifundir munu fara fram um flesta samningskafla. Á þeim fyrri kynnir framkvæmdastjórnin löggjöf ESB og á þeim síðari kynnir Ísland sína löggjöf. Í þeim köflum sem falla undir EES-samninginn og þar sem regluverkið hefur að öllu leyti verið tekið upp af Íslands hálfu, verður aðeins um einn fund að ræða.

Utanríkisráðuneytið birti á heimasíðu sinni hinn 20. október sl. tímaáætlun fyrir rýnivinnu komandi vetrar en henni lýkur í júní á næsta ári. Upplýsingar um viðfangsefni samningskafla, um samninganefnd Íslands og um skipulag viðræðnanna er að finna á heimasíðu utanríkisráðuneytisins um samningaviðræður Íslands og ESB.

Sjá greinargerð samningahóps um upplýsingatækni og fjölmiðlun.
Sjá tímaáætlun vegna rýnivinnu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta