Hátæknisamstarf Íslands og Japan
Á fundum Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra með ráðherrum utanríkis-, efnahags- og iðnaðarráðherra Japans og forstjórum Mitsubishi Heavy Industries og japanskra fjárfestingasjóða, var ákveðið að þróa samstarf milli íslenskra og japanskra aðila í orkumálum og grænni hátækni.
Akihiro Ohata, ráðherra efnahagsmála, iðnaðar og viðskipta, lagði áherslu á það á fundi með utanríkisráðherra að Íslendingar og Japanir myndu vinna saman að verkefnum í jarðhita í Japan, Íslandi og þróunarríkjum. Ráðherrann er jafnframt því að vera einn valdamesti stjórnmálamaður í Japan formaður þingamannavinasambands Japans og Íslands í japanska þinginu, “Diet”.
Ohata lýsti vilja til þess að samstarf yrði eflt enn frekar um framkvæmdir á Íslandi með þátttöku fyrirtækja og fjárfesta frá Japan. Hann lýsti eindregnum áhuga á að íslensk og japönsk fyrirtæki tækju saman höndum í þriðju ríkjum, t.d. í Austur-Afríku, Rómönsku Ameríku eða Indónesíu við nýtingu jarðhita. Íslensk og japönsk fyrirtæki eru þegar starfandi á þessum svæðum.
Utanríkisráðherra útskýrði að með slíku samstarfi þar sem Íslendingar legðu til þekkingu á jarðhita og tengslanet Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna og Japanir kæmu með tækniþekkingu, fjármagn og túrbínur, væri hægt að lyfta þjóðum upp úr orkufátækt og minnka um leið útblástur gróðurhúsalofttegunda. Japönsk stjórnvöld hafa þegar heitið háum fjárhæðum til umhverfisvænna fjárfestinga í þróunarlöndum.
Á 300 manna ráðstefnu sem sendiráð Íslands í Tókíó stóð fyrir í samstarfi við japönsk stjórnvöld, fyrirtæki og fjárfestingasjóði um nýtingu jarðhita kom fram sú tillaga af hálfu japanskra aðila að íslensk verkfræðifyrirtæki könnuðu grundvöll að því að leggja hitaveitu með Japönum í borginni Aomori í norðurhluta Japans.
Eftir ráðstefnuna áttu svo íslensku fyrirtækin fundi með japönskum orku-, verkfræði- og fjárfestingarfyrirtækjum. Í mörgum tilfellum komu skýrar óskir frá japönsku fyrirtækjunum um samstarf við þróun jarðvarmaverkefna í þróunarríkjum, þ.s. þau japönsku myndu kaupa þjónustu af þeim íslensku.
Í ferð utanríkisráðherra voru ræddir möguleikar á frekari verkefnum Mitsubishi Heavy Industries á Íslandi en fyrirtækið hefur um árabil selt túrbínur í íslenskar vatnsafls- og jarðhitavirkjanir. Á vinnufundi ráðherra með Hideaki Omiya forstjóra Mitsubishi og Ichiko Fukue aðstoðarforstjóra, voru meðal annars ræddar hugmyndir um rafbílavæðingu íslenska bílaflotans, framleiðslu á umhverfisvænu eldsneyti úr útblæstri af verksmiðjum og hugmynd forystumanna Mitsubishi um hvort fýsilegt væri að þróa rafhlöðuknúnar lestir á Íslandi, til dæmis milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar.
Utanríkisráðherra færði Japönum formlega þakkir íslenskra stjórnvalda fyrir stuðning þeirra við áætlun AGS en forsætisráðherra Japans var sá fyrsti sem hét auknum fjármunum til AGS til að taka á vanda Íslendinga haustið 2008. Þetta gerði ráðherra m.a. á fundi með Seiji Maehara utanríkisráðherra Japans og Yakuta Banno varautanríkisráðherra þar sem farið var yfir samskipti þjóðanna, samstöðu á alþjóðavettvangi, stöðuna í samskiptum Japana og Kínverja og Japana og Rússa, og samninga sem æskilegt væri að koma á fót milli ríkjanna. Utanríkisráðherra lagði meðal annars áherslu á að gerður yrði loftferðasamningur milli ríkjanna til að auka ferðamannafjölda.
Seiji Maehara, utanríkisráðherra Japans, sagðist ætla hvetja japanska þróunarsjóði að skoða með jákvæðum hug sameiginleg verkefni japanskra og íslenskra fyrirtækja við nýtingu jarðvarma. En þess má geta að Yakuta Banno er framkvæmdastjóri vináttusambands Japans og Íslands í japanska þinginu .
Utanríkisráðherra Íslands átti auk þess fundi með forstjórum stærstu fjárfestingasjóða og útflutningstryggingasjóða Japans, ásamt stjórnarformanni og forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur.
Einnig átti utanríkisráðherra fund með Yasutoshi Nishimura, fyrirverandi aðstoðar-utanríkisráðherra og núverandi “skugga efnahags-,viðskipta- og iðnaðarráðherra” Japans. En hann er þingmaður stjórnarandstöðuflokksins LPD þar sem hann er mikill áhrifamaður. Yasutoshi Nishimura er eins og ofangreindir ráðherrar Ohata og Banno, mikill áhugamaður um Ísland og jarðvarmamál.
Í framhaldi af heimsókn utanríkisráðherra verður stofnaður vinnuhópur milli ríkjanna um að koma verkefnum í framkvæmd. Sendiráð Íslands í Japan mun leiða starfið fyrir Íslands hönd ásamt japönskum og íslenskum orkufyrirtækjum og verkfræðistofum.