Hoppa yfir valmynd
20. nóvember 2010 Forsætisráðuneytið

Ný grundvallarstefna Atlantshafsbandalagsins og náið samstarf við Rússland

Leiðtogafundur NATO í Lissabon -  Angela Merkel kanslari Þýskalands, Julia Gillard forsætisráðherra Ástralíu og Jóhanna Sigurardóttir forsætisráðherra
Leiðtogafundur NATO í Lissabon

Leiðtogaráð NATO samþykkti á fundum sínum 19.- 20. nóvember nýja grundvallarstefnu bandalagsins, sem unnið hefur verið að síðasta ár. Stefnunni er ætlað að gera störf NATO markvissari, hagkvæmari og auka samvinnu við alþjóðastofnanir og ríki utan bandalagsins. Framkvæmdastjóri NATO, Anders Fogh Rasmussen, vann tillögur sína að nýrri grundvallarstefnu meðal annars á grunni skýrslu sérfræðinganefndar sem skilaði tillögum í maí s.l.  Mikið og öflugt samráð hefur verið við öll bandalagsríkin í ferlinu og náðist góð sátt um niðurstöðurnar.  Áherslur Íslands hafa verið endurspeglaðar í texta grundvallarstefnunnar, meðal annars aukin samvinna við borgaralegar alþjóðastofnanir og samstarfsríki. Efni grundvallarstefnunnar hafði verið kynnt utanríkismálanefnd Alþingis af utanríkisráðherra fyrir leiðtogafundinn

Forsætisráðherra lýsti á fundinum sérstakri ánægju með aukna áherslu á pólitískt samráð og eflingu borgaralegrar uppbyggingar innan NATO sem ætlað er að endurspegla heilstæða nálgun í verkefnum og aðgerðum bandalagsins. Í yfirlýsingu fundarins var sérstaklega vísað í ákvæði ályktunar öryggisráðs Sþ. nr.1325 frá 2000 um konur, frið og öryggi, sem verið hefur áherslumál af hálfu Íslands.

Fundur fór fram í NATO-Rússlandsráðinu þar sem NATO leiðtogarnir 28 funduðu með forseta Rússlands, Dmitry Medvedev og lýsti forsætisráðherra á þeim fundi ánægju sinni með aukið samstarf bandalagsins við Rússa. Ætlunin er að samstarfið muni meðal annars varða uppsetningu eldflaugakerfis NATO í Evrópu.

Fundur þeirra 50 ríkja sem taka þátt í alþjóðlegum öryggis- og uppbyggingarsveitum í Afganistan (ISAF), var einnig hluti af dagskrá leiðtogafundarins.  Forseti Afganistan, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna auk fleiri forystumanna úr alþjóðasamfélagi, sóttu fundinn. Skýr stefna hefur verið tekin um að næstu árin verði yfirfærsla ábyrgðar frá ISAF þjóðunum til Afgana sjálfra  þar sem þeir taki forystu í eigin öryggismálum. Jafnframt var gengið frá samkomulagi um samstarf til lengri tíma milli NATO og Afganistan til að Afganir sjálfir geti tryggt eigið öryggi og byggt upp innviði samfélagsins, bæði hvað varðar her og lögreglu. Ísland tekur þátt í verkefni ISAF í Afganistan og starfa nú fimm starfsmenn fyrir íslensku friðargæsluna í Kabúl, auk þess sem tveir íslenskir starfsmenn starfa fyrir verkefni Sameinuðu þjóðanna í Afganistan.

Leiðtogaráð Atlantshafsbandalagsins á fundi í Lissabon 19. til 20. nóvember 2010

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta