Losun gróðurhúsalofttegunda þáttur í útboði á ríkisbifreiðum
Losun gróðurhúsalofttegunda er veigamikill þáttur í mati á tilboðum í útboði Ríkiskaupa á bifreiðum sem nú stendur yfir. Það er í samræmi við aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum, en notkun ríkisins á sparneytnum og loftslagsvænni ökutækjum er nefnd sem ein af lykilaðgerðum áætlunarinnar. Gera má ráð fyrir að ríkið kaupi eða leigi allt að 100 bifreiðar á næsta ári.
Ríkiskaup hafa unnið að gerð íslenskra umhverfisskilyrða fyrir útboð á vegum opinberra aðila. Fyrsta útgáfa af skilyrðunum er birt á vef vistvænna innkaupa. Skilyrðin ná til ræstivöru og þjónustu, prent- og ljósritunarpappírs, prentþjónustu, húsgagna, vefnaðarvöru, sápu og matvara og veitingaþjónustu. Vinna við gerð umhverfisskilyrða er í samræmi við stefnu stjórnvalda um vistvæn innkaup. Stöðugt er unnið að gerð umhverfisskilyrði fyrir fleiri vöruflokka og má geta þess að nú nýlega birti Evrópusambandið umhverfisskilyrði fyrir átta nýja vöruflokka.
Með því að setja skýrar kröfur um umhverfissjónarmið í opinberum innkaupum er hvatt til nýsköpunar og virkrar samkeppni um vistvænar vörur og þjónustu á markaðinum. Um leið er stuðlað að því að draga verulega úr umhverfisáhrifum innkaupa og neyslu í opinberri starfsemi og þar með samfélagisins í heild.
Frétt á heimasíðu Ríkiskaupa um útboð á ríkisbifreiðum.
Frétt á heimasíðu Ríkiskaupa um ný íslensk umhverfisskilyrði.