Hoppa yfir valmynd
22. nóvember 2010 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra stýrði fundi EES-ráðsins

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, stýrði í dag fundi EES-ráðsins, sem haldinn var í Brussel, en utanríkisráðherra hefur verið formaður ráðsins. Á vettvangi ráðsins eiga fulltrúar EFTA-ríkjanna, sem eiga aðild að EES-samningnum, auk fulltrúa framkvæmdastjórnar, ráðherraráðs og forysturíkis ESB, reglulegt samráð um framvindu EES-samningsins.
 
Utanríkisráðherra fór fyrir hönd EFTA-ríkjanna yfir afstöðu þeirra til ýmissa mála sem samningnum tengjast.
 
Hann reifaði sérstaklega athugasemdir Íslands við tillögu framkvæmdarstjórnar ESB um hvernig eigi að innleiða tilskipunina um flugöryggismál, sem felur í sér að vald til að refsa flugrekendum sem gerast brotlegir við tilskipunina sé fært frá Íslandi til Eftirlitsstofnunar EFTA, en íslensk stjórnvöld telja að slíkt valdaframsal kunni að vera í andstöðu við stjórnarskrá Íslands. Ráðherrann lagði hins vegar áherslu á fullan vilja Íslendinga til að innleiða sjálf öryggisákvæðin.
 
Orkumál voru meðal annars til umræðu á fundi EES-ráðsins, og var sérstaklega farið yfir endurnýjanlega orkugjafa. Utanríkisráðherra gagnrýndi Evrópusambandið fyrir að gera sér ekki grein fyrir möguleikum jarðhita, sem víða væri að finna í nýtanlegum mæli í löndum sambandsins, og bauð fram sérfræðiþekkingu Íslendinga.
 
Ráðherrann stýrði jafnframt sérstakri umræðu um stöðu alþjóðamála, þar sem rædd var afstaðan til Rússlands, Kína og Miðausturlanda.  Í umræðunni ítrekaði Össur afstöðu Íslands til málefna Palestínu og mannréttindabrota sem íbúar Palestínu, einkum Gaza, sæta reglulega af hálfu Ísraels.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta