Íslenskar samtímabókmenntir kynntar í ráðhúsi Parísarborgar
Laugardaginn 20 nóvember sl. stóð sendiráð Íslands í París fyrir kynningu á íslenskum samtímabókmenntum. Málstofa var haldin í tengslum við þátttöku Íslands í Salon du Livre 2011, en þar verða Norðurlönd í heiðurssæti sem og þátttöku Íslands í bókasýningunni í Frankfurt þar sem Ísland skipar heiðurssæti sama ár. Viðburðurinn var vel sóttur af áhugafólki um íslenskar bókmenntir, en fleiri en 140 manns sóttu málstofuna, þ.á.m. blaðamenn, fræðimenn og fulltrúar útgáfufyrirtækja og stærstu bókasafna Parísar. Á málstofunni fjölluðu þeir Torfi Tulinius, prófessor við HÍ og Régis Boyer fyrrvervarandi prófessor við Sorbonne háskóla, um íslenskar samtímabókmenntir og sögulegar rætur þeirra. Jafnframt fluttu þau Susanne Juul framkvæmdastjóri útgáfufyrirtækisins Gaïa og Eric Boury þýðandi íslenskra skáldsagna, erindi um íslenskar samtímabókmenntir frá sjónarhóli franskra lesenda. Sérlegir gestir málstofunnar voru rithöfundarnir Steinunn Sigurðardóttir, Jón Kalman Stefánsson og Yrsa Sigurðardóttir.
Málstofan var haldin í samvinnu við Bókmenntasjóð Frakklands (Centre national du livre) og Bókmenntasjóð Íslands með stuðningi borgarstjóra 16. hverfis Parísarborgar og samráðshópi utanríkisráðuneytisins og mennta- og menningarmálaráðuneytis.
Á meðfylgjandi mynd má sjá Torfa Tulinius kynna rithöfundana Steinunni Sigurðardóttur, Jón Kalman Stefánsson og Yrsu Sigurðardóttur.
Upplýsingaskjal um kynninguna (pdf)
Samstarfsaðilar kynningarinnar:
http://www.mairie16.paris.fr/mairie16/jsp/site/Portal.jsp
http://www.centrenationaldulivre.fr/
http://www.bok.is/
http://www.salondulivreparis.com/
http://www.sagenhaftes-island.is/en