Íslenskur ríkisborgararéttur ekki til sölu
Dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu hafa að undanförnu borist fyrirspurnir frá útlöndum þar sem vísað er til sögusagna um að á Íslandi hafi verið samþykktar nýjar reglur um að mögulegt sé fyrir útlendinga að kaupa íslenskan ríkisborgararétt án þess að búa hér á landi eða vera af íslenskum uppruna. Vísað er til þess að Ísland hafi tekið upp svokallað Economic Investment Citizenship Programme sem í felist öll þau réttindi sem fylgja íslenskum ríkisborgararétti. Meðal þeirra réttinda er skilyrðislaus landvistarréttur, réttur á vernd íslenska ríkisins hvar sem dvalið er í heiminum og öll þau réttindi sem íslensk stjórnvöld hafa tryggt þegnum sínum með samningum við önnur ríki.
Í tilefni af þessum fyrirspurnum vill ráðuneytið árétta að engar breytingar hafa verið gerðar á löggjöf í þessa veru. Ráðuneytið hefur ekki áform um að leggja til slíkar breytingar þar sem vikið verði frá almennum skilyrðum laga um íslenskan ríkisborgararétt gegn greiðslu eða vegna viðskiptalegra sjónarmiða.