Hoppa yfir valmynd
23. nóvember 2010 Innviðaráðuneytið

Leitað leyfa til að undirbúa flutning á ósum Markarfljóts til bráðabirgða

Siglingastofnun hefur sótt um leyfi til sveitarfélagsins Rangárþings eystra vegna hugsanlegs flutnings á ósum Markarfljóts til austurs. Með flutningnum er talið að minna berist af sandi og gosefnum úr fljótinu að Landeyjahöfn en efnisburður hefur valdið truflunum á siglingum Herjólfs undanfarið.

Á fundi í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu nýlega voru ræddar ýmsar tillögur um aðgerðir í og við Landeyjahöfn til að auka rekstraröryggi hafnarinnar. Fyrsta skrefið er að semja um viðhaldsdýpkun næstu mánuði við lægstbjóðanda, Íslenska gámafélagið. Þá er verið að undirbúa kaup á plógi í samvinnu við bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum en hann á að nota til að draga efni úr innsiglingu Landeyjahafnar. Þá kom fram hugmynd um að færa ósa Markarfljóts til austurs um tvo km.

Ögmundur Jónasson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, samþykkti fyrir sitt leyti þessar hugmyndir enda yrði aflað tilskilinna leyfa vegna aðgerðanna.

Sem fyrr segir hefur Siglingastofnun nú sótt um leyfi vegna flutnings á ósum Markarfljóts og segir Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri Rangárþings eystra, að kannað verði hvernig standa megi að þessu verkefni. Leitað verði umsagnar og álits Skipulagsstofnunar og Umhverfisstofnunar og málið rætt við landeigendur.

Sveitarstjórinn telur að eftir fund sem haldinn var í gær með öllum aðilum, þ.e. landeigendum, fulltrúum sveitarfélagsins, Siglingastofnunar, Vegagerðarinnar, Landgræðslunnar, Skipulagsstofnunar og Umhverfisstofnunar, hafi málið skýrst og fram hafi komið hugmyndir um breytta útfærslu sem kannaðar verði og ljóst sé að þessi flutningur muni aðeins verða tímabundinn.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta