Hoppa yfir valmynd
23. nóvember 2010 Utanríkisráðuneytið

Viðræður um fríverslun við Rússa á næsta ári

EFTA-Ministerial-Meeting-231110

Össur Skarphéðinsson, utanríkisviðskiptaráðherra, staðfesti í dag fyrir Íslands hönd að viðræður um fríverslunarsamning við Rússland hefjist í byrjun næsta árs. Staðfestingin fór fram á ráðherrafundi EFTA-ríkjanna í Genf, og samhliða staðfestu EFTA-ríkin viðræður um fríverslun við Hvíta-Rússland og Kasakstan, en ríkin eru í sameiginlegu tollabandalagi með Rússum.

Utanríkisráðherra sagði fríverslunarsamning við Rússa vera okkur Íslendingum mikilvægan þar sem töluverður útflutningur er á vörum og þjónustu þangað, og líkur á að hann geti vaxið verulega með góðum fríverslunarsamningi, ekki síst í ljósi aukinna samskipta ríkjanna upp á síðkastið. Ráðherra sagði þennan áfanga mikilvægt skref til að halda áfram vinsamlegri þróun í samvinnu ríkjanna, og er af Rússlands hálfu án efa liður í sterkri viðleitni þeirra síðustu misseri til að tengjast Vesturlöndum  nánari böndum, en þeir hafa ekki síður lagt áherslu á batnandi og jákvæð samskipti við smærri ríkin en hin stóru.

Í ræðu sinni rifjaði Össur upp að Pútín Rússlandsforseti hefði nýlega lagt blessun sína yfir umfangsmikil verkefni í jarðhita í austurhluta Rússlands, og hugsanlega víðar, sem unnin yrðu með íslenskri tækniþekkingu. Hann taldi að fríverslunarsamningur gæti ýtt undir viðskipti þjóðanna á sviði orkuvinnslu og afleiddra verkefna.

Hann lagði jafnframt áherslu á að Íslendingar bindi vonir við viðræður ríkjanna þriggja, Rússlands, Hvíta-Rússlands og Kasakstan, um inngöngu í Alþjóðaviðskiptastofnunina (WTO) en Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra í Brussel, hefur stýrt þeim viðræðum af hálfu stofnunarinnar.

Á ráðherrafundinum í Genf tók íslenski ráðherrann jafnframt upp ósk Færeyinga um að EFTA skoði möguleika á inngöngu þeirra í EFTA í framtíðinni, og lýsti jákvæðri afstöðu íslensku ríkisstjórnarinnar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta