Framkvæmdastjórn ESB segir skuldir fyrirtækja hægja á endurreisn
Skuldir einkageirans eru ein helsta fyrirstaða efnahagsbata á Íslandi, samkvæmt haustspá framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sem gefin var út í dag. Endurskipulagningar skulda er þörf til þess að fyrirtæki geti vaxið, fjárfest og skapað ný störf.
Þetta er í fyrsta sinn sem framkvæmdastjórn ESB fjallar um Ísland sem umsóknarríki í haustspá sinni. Dýfa hagkerfisins er talin hafa náð botni og vexti spáð í landsframleiðslu, fjárfestingu og einkaneyslu á næsta ári. Hins vegar hafi skuldir heimila og fyrirtækja hækkað verulega vegna falls gengis krónunnar um nær helming og því verðbólguskoti sem fylgdi. Endurskipulagning hafi tekið langan tíma vegna flækjustigsins og fá heimili hafi nýtt sér þau úrræði sem í boði eru. Áframhaldandi óvissa um skuldastöðu fyrirtækja og heimila geti því hægt á fjárfestingu og einkaneyslu.
Í spánni kemur fram að útflutningur muni eflast vegna vaxandi erlendrar eftirspurnar, en honum séu þó skorður settar vegna samsetningar útflutningsgreinanna. Þá muni atvinnuleysi lækka í 6% á tveimur árum, en verðbólga sé lág og stöðug og muni lækka niður í allt að 2% á næstu árum.
Loks segir í greiningunni að fjárlagafrumvarp fyrir árið 2011 sýni að ríkisstjórnin sé heil í viðleitni sinni til að jafna ríkisútgjöldin, en að frekara aðhalds sé þörf standist ekki sú hagvaxtarspá sem frumvarpið er byggt á. Án þess verði fjárlagahalli meiri en nú er gert ráð fyrir.
Haustspá framkvæmdastjórnar ESB má lesa í heild sinni hér:
http://ec.europa.eu/economy_finance/publications/european_economy/2010/pdf/ee-2010-7_en.pdf