Hoppa yfir valmynd
30. nóvember 2010 Forsætisráðuneytið

Frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna sameiningar ráðuneyta

Forsætisráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna sameininga ráðuneyta sem samþykkt voru af Alþingi 9. september sl., sbr. lög nr. 121/2010. Í þeim er kveðið á um sameiningu félags- og tryggingamálaráðuneytisins og heilbrigðisráðuneytisins í nýtt velferðarráðuneyti og sameiningu dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins í nýtt innanríkisráðuneyti frá og með 1. janúar nk.

Vinna við stofnun nýju ráðuneytanna er í fullum gangi og er henni stýrt af verkefnastjórnum með þátttöku starfsmanna í hvoru ráðuneyti fyrir sig, ásamt samráðshópi sem tryggja á samræmd vinnubrögð . Nú þegar hafa nýir ráðuneytisstjórar verið valdir til að stýra ráðuneytunum í kjölfar mats hæfnisnefnda. Þegar sameinuð ráðuneyti taka til starfa munu fimm konur og fimm karlar gegna stöðum ráðuneytisstjóra í Stjórnarráði Íslands.

Frumvarpið sem nú er lagt fram byggir á ákvörðun Alþingis um stofnun nýrra ráðuneyta um áramótin. Í því eru lagðar til breytingar á fagheitum viðkomandi ráðherra og ráðuneyta í ýmsum lögum, til samræmis við ný heiti ráðuneyta. Með frumvarpinu er jafnframt lagt til að fækkað verði tilvísunum í fagheiti ráðherra og ráðuneyta þannig að heiti þeirra komi að jafnaði einungis fyrir einu sinni í hverjum lögum. Slíkt er til nokkurrar einföldunar en þess er þó gætt að ekki fari milli mála hvert er ábyrgðarsvið viðkomandi ráðherra. Í frumvarpinu felast því ekki efnislegar breytingar á málefnasviðum viðkomandi ráðherra og verkefni eru ekki færð til milli ráðuneyta með frumvarpinu. Í einstaka tilvikum hefur verið talin þörf á að breyta orðalagi og er slíkt þá skýrt sérstaklega í athugasemdum við einstakar greinar frumvarpsins. Á þetta til dæmis við þegar um tilnefningar- og samráðsákvæði er að ræða.

Frumvarpið á vef Alþingis

Ræða forsætisráðherra á Alþingi

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta