Nr. 73/2010 - Makrílveiðar 2011
Á lokafundi strandríkjanna fjögurra sem aðild eiga að makrílveiðum í NA Atlantshafi varð ljóst að ekki næst samkomulag um hlutdeild Íslands í makrílveiðum næsta árs. Fundurinn var haldinn í Osló dagana 25. – 26. nóvember með þátttöku ESB, Noregs, Færeyja og Íslands en Rússland átti þar áheyrnarfulltrúa.
Framundan er röð tvíhliða viðræðna milli ESB og Noregs, ESB og Færeyja og Noregs og Færeyja um fiskveiðiheimildir. Gert mun ráð fyrir því að aðilarnir þrír fundi einhvern tíma í þarnæstu viku um hlutdeild Færeyja í makrílveiðum. Þá skýrist væntanlega endanlega, hvort samkomulag tekst milli þessara þriggja aðila. Búast má við að ESB og Noregur bíði með að taka ákvörðun um eigin makrílveiðiar þangað til.
Á tvíhliða fundi Íslands og Rússlands, sem var áheyrnaraðili á fundinum, kom fram að Rússar hyggjast, eins og á þessu ári, ákvarða sér hlutdeild fyrir næsta ár sem nemur 5-6% af heildaraflanum. Rússar hafa veitt makríl á alþjóðlega hafsvæðinu (Síldarsmugunni) en einnig haft veiðiheimildir innan færeysku lögsögunnar.
Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur ákveðið að Ísland taki sér óbreytta hlutdeild í makrílveiðunum á næsta ári, að teknu tilliti til aukningar í ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknarráðsins (ICES). Ísland mun jafnframt beina því til hinna strandríkjanna að taka tillit til þessa við kvótaákvarðanir sínar með það í huga að heildarveiðar fari ekki fram úr vísindalegri ráðgjöf.
Þegar ESB og Noregur, og hugsanlega Færeyjar, hafa samið eða tekið ákvarðanir um sínar aflaheimildir gefur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið út viðeigandi reglugerð. Þar með verða aflaheimild ársins í tonnum talið fastsett m.t.t. heildarveiði af stofninum.
Óháð öðru verða þau 8.000 tonn, sem ekki veiddust af kvótanum á þessu ári, færð yfir á næsta ár og koma ekki til frádráttar á heildaraflaheimild næsta árs.