Fyrsti kvótamarkaður í mjólk
Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra undirritaði fyrr á árinu reglugerð um markað með greiðslumark mjólkur. Fyrsti markaðurinn er haldinn í dag 1. desember. Það er Matvælastofnun sem sér um tilboðsmarkaðinn en með honum er ætlunin að koma til móts við þarfir greinarinnar fyrir nauðsynlega tilfærslu innan hennar, auka gagnsæi viðskipta og koma um leið í veg fyrir verðlagningu greiðslumarks sem vinnur gegn hag neytenda og greinarinnar sjálfrar.
Alls bárust Matvælastofnun 56 tilboð um sölu og kaup á greiðslumarki. Seljendur buðu greiðslumark á verðbilinu 170 til 370 krónur á lítra en kauptilboð þeirra sem óskuðu eftir greiðslumarki voru allt frá tæplega 350 kr. til 160 króna.
Jafnvægisverðið er myndað þannig, að öll sölutilboð eru sett á framboðslínu eftir hækkandi verði og kauptilboð á eftirspurnarlínu eftir lækkandi verði. Þar sem línur eftirspurnar og framboðs mætast, liggur jafnvægisverðið en það var í þessu tilviki 280 krónur. Það er nokkru hærra en meðalverð viðskipta í maímánuði síðastliðnum þegar reglugerð um markaðinn gekk í gildi en til muna lægra en þau verð sem algeng voru síðustu misserin á undan þegar verð greiðslumarks fór í allt að 400 krónum á lítra. Alls eru það 138.555 lítrar sem viðskipti ná til að þessu sinni.
Kvótamarkaðir með greiðslumark mjólkur verða haldnir tvisvar á ári, þann 1. desember og 1. júní.