Leiðtogafundur ÖSE ítrekar mannréttindaskuldbindingar aðildarríkja
Á leiðtogafundi aðildarríkja Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE, sem lauk í Astana í Kasakstan í gærkvöldi, var ítrekað að grundvallarskuldbindingar ÖSE, m.a. á sviði mannréttinda væru enn í fullu gildi og að aðildarríkjum bæri að vinna að framgangi þeirra.
Eftir áralanga kyrrstöðu og jafnvel afturför, einkum er varðar mannréttindi, lýðræðisumbætur og virðingu fyrir réttarríkinu, undirstrikuðu leiðtogar aðildarríkja ÖSE að allar skuldbindingar stofnunarinnar giltu; þ.m.t. að brot á mannréttindum sé ekki innanríkismál hvers ríkis, heldur varði þau öll. Ekki náðist samstaða um áætlun um að þróa og tryggja framgang grundvallarskuldbindinga ÖSE ríkjanna sem telja verður nokkur vonbrigði eftir langar og strangar samningaviðræður fram á síðustu stundu.
Stefán Skjaldarson, fastafulltrúi Íslands hjá ÖSE, ávarpaði leiðtogafundinn fyrir hönd forsætisráðherra. Fylgir ávarpið hér: (á ensku).
Þar kom m.a. fram að mikilvægt væri að aðildarríki ÖSE stæðu við skuldbindingar sínar, ekki síst til að koma í veg fyrir átök og að styrkja mannréttindi og baráttuna gegn mansali. Auka þyrfti getu ÖSE til að miðla málum, stuðla að sáttum og koma í veg fyrir vopnuð átök. Þá sagði fastafulltrúi að Ísland myndi leggja sitt af mörkum þegar það tekur við formennsku Öryggissamvinnuvettvangs ÖSE (Forum for Security Cooperation, FSC), um áramótin.
Nánari upplýsingar má nálgast á heimasíðu ÖSE á vefslóðinni: www.osce.org