Tímabundið afnám víxlverkana milli bóta almannatrygginga og greiðslna úr lífeyrissjóðum
Í tengslum við viljayfirlýsingu sem undirrituð var í dag um aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna var undirrituð yfirlýsing um víxlverkun bóta almannatrygginga og lífeyrissjóða sem hefur verið vanda mál sem ríki og lífeyrissjóðir hafa glímt við í langan tíma. Þessi víxlverkun hefur fyrst og fremst komið öryrkjum illa þar sem bætur almannatrygginga hafa í mörgum tilfellum lækkað vegna greiðslna frá lífeyrissjóðum og öfugt. Viljayfirlýsing sem ríki og lífeyrissjóðir hafa undirritað felur í sér að leitast verður við að koma í veg fyrir víxlverkanir og tekjurýrnun öryrkja af hennar völdum. Þetta gildir næstu þrú árin en á þeim tíma verður fundin framtíðarlausn á vandanum. Auk þessa mun frítekjumark ellilífeyrisþega vegna lífeyrissjóðstekna hækka í áföngum á árunum 2013-2015 til samræmis við frítekjumark öryrkja.