46 – Ráðherraráðið og Evrópuþingið komast að samkomulagi um réttindi farþega í hópbifreiðum
Evrópuþingið og ráðið náðu ekki samkomulagi um nýjar reglur um réttindi farþega í hópbifreiðum og fór málið því í formlegan sáttaferil til að leiða það til lykta.
Fyrsti fundur sáttanefndar sem skipuð var fulltrúum beggja var 30. nóvember 2010. Á fundinum náðist samkomulag um reglur um réttindi farþega í hópbifreiðum. Samkomulagið þarf þó að samþykkja á formlegum fundum Evrópuþingsins og ráðsins en ef ekkert óvænt kemur til munu farþegar allra greina samgangna nú njóta sambærilegrar verndar.
Samkomulagið nær til reglna um bætur til farþega í áætlunaferðum þegar seinkanir verða eða ferðum verður aflýst auk þess sem fatlað fólk mun njóta verndar. Þau réttindi sem að ofan greinir munu þó eingöngu eiga við þegar ferðir eru lengri en 250 km.
Verði tafir lengri en tveir tímar, ferðum aflýst eða farþegar þurfa frá að hverfa vegna yfirbókana skulu fyrirtækin bjóða endurgreiðslu eða að koma farþegum á áfangastað með öðrum hætti. Geti fyrirtæki ekki endurskipulagt ferð verður það að bjóða greiðslu sem nemur hálfu miðaverði auk þess að endurgreiða miða að fullu. Þá verða fyrirtækin að bjóða upp á hressingu ef ferð sem taka á lengri tíma en þrjá tíma er aflýst eða seinkar um 90 mín eða meira. Þegar nauðsyn krefur þurfa fyrirtækin að bjóða upp á hótelgistingu en þurfa ekki að kosta meiru til en 80 evrum á nóttu og að hámarki tvær nætur. Eigi seinkun eða aflýsing rætur að rekja til veðurskilyrða eða annarra meiriháttar náttúruhamfara þarf þó ekki að bjóða hótelgistingu.
Þegar slys verða er gert ráð fyrir bótum vegna áverka, dauða og tapaðs farangurs. Lágmarkið verður 220 þúsund evrur á farþega og 1.200 evrur á tösku. Ef nauðsynlegt reynist verður flutningafyrirtækið að bjóða upp á hótelgistingu með sömu formerkjum og þegar seinkun og aflýsingar verða.
Hver greiðir skaðabætur er ekki ljóst í samkomulaginu og munu lög einstakra ríkja gilda í þeim málum.
Reglugerðin mun taka gildi tveimur árum eftir að hún er samþykkt.
Þetta má lesa í 4095-hefti Europolitics.